Öryggisverðir gættu einnig barna í Hagaskóla

Öryggisverðir voru fengnir til að gæta barnananna við tímabundna skólahúsnæðið …
Öryggisverðir voru fengnir til að gæta barnananna við tímabundna skólahúsnæðið í Ármúla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki eru mörg dæmi þess að skólastjórnendur hafi þurft að kalla til öryggisverði til að sinna gæslu í grunnskólum í Reykjavík, líkt og gert var í Rimaskóla í síðustu viku. Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, þekkir einungis tvö nýleg dæmi, en fyrir utan Rimaskóla var þjónusta öryggisvarða nýtt til að gæta nemenda Hagaskóla þegar þeir stigu út úr rútum við tímabundið skólahúsnæði í Ármúla.

„Þetta er ekki mjög algengt en á meðan menn upplifa einhverja ólgu þá er eðlilegt að menn vilji frekar hafa vaðið fyrir neðan sig,“ segir Helgi í samtali við mbl.is.

Helgi Grímsson er sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs.
Helgi Grímsson er sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs. Ljósmynd/Aðsend

Öryggisverðir voru fengnir til að sinna gæslu við Rimaskóla í Grafarvogi vegna veikindaforfalla skólaliða og óróleika í hverfinu. Þeir hafa staðið við innganga skólans á skólatíma frá því á föstudag og gætt þess að óviðkomandi einstaklingar komi ekki inn í skólann, en borið hefur á því upp á síðkastið.

„Þetta snýr að því að ef það er eitthvað í ytra umhverfinu sem menn hafa áhyggjur af og telja að með þeim mannskap sem er í húsi á þeim tíma, að það sé ekki nægjanlegt, þá höfum við bent á þessa leið, að hafa öryggisverði. Ef það eru tímabundnar ytri aðstæður sem menn vilja vera viðbúnir að þá er þetta leið og eðlilegt bara,“ segir Helgi.

Gættu þess að krakkarnir færu ekki út á götu 

Þið hvetjið þá frekar til þess að þessi þjónusta sé nýtt en ekki, ef það er talin þörf á?

„Já, eins og við gerðum í sambandi við Hagaskóla þegar krakkarnir voru að fara úr rútunum uppi í Ármúla, þá fengum við öryggisvörð til að aðstoða og gæta þess að þau væru ekki að æða út á götu eða eitthvað slíkt.“

Gæslan í Rimaskóla og Ármúla var því af ólíkum ástæðum, en ekki voru uppi áhyggjur af óviðkomandi fólki á síðarnefnda staðnum.

„Þarna var líka verið að klára framkvæmdir við eldvarnir sem voru tilskildar. Liður í því var að hafa öryggisvörð á staðnum sem gæti stýrt aðstæðum ef hætta skapaðist.“

Helgi man ekki eftir fleiri tilfellum þar sem þjónusta öryggisvarða hefur verið nýtt til gæslu eða aðstoð í skólum. „En mér finnst þetta bara skynsamleg ráðstöfun til að hafa ró og festu.“

Þurfum að standa þéttar saman kringum börnin

Aðspurður hvort skólastjórnendur séu almennt meðvitaðir um leita eftir þjónustu öryggisvarða, telji þeir þörf á, segir Helgi:

„Við erum bara að læra í takt við þróun samfélagsins og gera eins og við getum til að bregðast við aðstæðum sem koma upp á hverjum tíma.“

Þóranna Rósa Ólafsdóttir, skólastjóri Rimaskóla, sagði í samtali við mbl.is í morgun að mikilvægt væri að opna á umræðu um öryggismál í skólum. Helgi er sammála því.

„Það er full ástæða fyrir okkur sem samfélag að taka miklu betur höndum saman. Þetta er ekki eitthvað sem varðar bara skólana, þetta varðar foreldrana og hvernig við fjöllum um þessi mál í fjölmiðlum. Við erum á þeim stað sem samfélag að við verðum að grípa til þeirra ráða sem við gripum til þegar við vorum að stemma stigu við óhóflegum útvistartíma hjá unglingum fyrir nokkrum áratugum síðan, og unglingadrykkju og reykingum. Ég held að við þurfum að gera það sama núna út af þessari ofbeldisumræðu og ofbeldisverkum sem við sjáum. Standa þéttar saman kringum börnin okkar. Og fá að sjálfsögðu börnin okkar og unglingana með í þetta samtal.“

Mikilvægt sé að gera börnum og unglingum grein fyrir alvarleika þess að beita ofbeldi.

„Ef það er jafnvel þannig að unglingar telji það ekki ofbeldi að slá og kýla. Að það sé jafnvel einhver leikaraskapur, þá erum við í erfiðri stöðu. Við þekkjum alveg hörmuleg dæmi þessi að farið hefur mjög illa bara við eitt högg.“

Vaxandi umræða um bætt öryggi

Skólastjóri Rimaskóla benti jafnframt á að á stórum vinnustöðum væru flestir með aðgangskort en skólarnir væru opnir öllum. Spurður hvort það komi til greina að hafa skólana meira lokaða, segir Helgi eðlilegt að ræða þau mál.

Meðal annars hafi verið rætt um öryggismyndavélar í skólum, þá aðallega út af skemmdarverkum frekar en ofbeldisverkum. „Við verðum að vera vakandi fyrir þessu og það er mikilvægt að bregðast við og vera stöðugt að rýna í hvað þarf að gera.“

Helgi bendir á að í kórónuveirufaraldrinum hafi verið meiri aðgangsstýring inn í skólana til að koma í veg fyrir útbreiðslu smita. En þangað komu einungis nemendur og starfsfólk, nema í sérstökum tilfellum.

„Við vorum strangari í öllu aðgengi inn í leik- og grunnskóla og ég vil bara halda þessu samtali áfram. Þegar það koma upp ofbeldisverk þá rís upp umræða um viðbrögð og svo hjaðnar hún oft aftur. En þetta með að huga meira að öryggi í skóla- og frístundastarfi, sú umræða hefur verið sterkari á síðustu árum og er að vaxa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert