Samfylkingin dæmd til greiðslu vegna ólögmætrar riftunar

Samfylkingin.
Samfylkingin. mbl.is/Hari

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Fulltrúaráð Samfylkingarinnar í Reykjavík til að greiða Sjónveri 600.000 kr. vegna leigu á húsnæði undir kosningaskrifstofu, en samningnum var síðar rift. 

Sjónver leigði fulltrúaráðinu húsnæði undir kosningaskrifstofu tímabundið til sex mánaða, frá 31. mars 2021 til 1. október sama ár, en fulltrúaráðið lýsti yfir riftun leigusamningsins og skilaði húsnæðinu rúmri viku eftir afhendingu þess.

Þá hafði ráðið ekkert greitt Sjónveri fyrir afnotin og krafðist félagið í málinu þess að fulltrúaráðið greiddi félaginu umsamda leigu í sex mánuði.

Héraðsdómur féllst ekki á að Fulltrúaráði Samfylkingarinnar í Reykjavík hefði verið heimilt að rifta samningnum á þeim grundvelli sem gert var, en ráðinu var gert að greiða Sjónveri leigu fyrir fyrsta mánuð umsamins leigutíma, sem gjaldfallin var þegar stefnandi tók við umráðum húsnæðisins á ný.

Sjónver höfðaði málin á hendur ráðinu í febrúar á þessu ári en það var dómtekið nú í nóvember og dómur féll 30. nóvember. Þar krafðist Sjónver þess að fulltrúaráðið greiddi alls 3,6 milljónir fyrir sex mánaða húsaleigu. 

Sögðu að húsnæðið væri ófullnægjandi

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að fulltrúaráðið hafi lýst aðdraganda samningsgerðar svo að það hafi leitað að leiguhúsnæði undir kosningaskrifstofu sína fyrir komandi kosningar snemma árs 2021. Nýta hafi átt húsnæðið annars vegar undir vinnuaðstöðu fyrir starfsmenn, skrifstofur og úthringiver, og hins vegar til þess að hýsa fundi og samkomur vegna kosningabaráttunnar þar sem boðið yrði upp á veitingar. Leitað hafi verið að auðu húsnæði þar sem áður hefði verið veitingarekstur og hafi forsenda leigunnar verið sú að unnt yrði að undirbúa og bjóða fram veitingar í húsnæðinu. Fulltrúaráðið kvað húsnæðið við skoðun þann 5. mars 2021 hafa verið rafmagnslaust og sérstaklega hafi verið dimmt í eldhúsi, en fullyrt hefði verið við skoðun að eldhúsið væri tilbúið til notkunar og að eldhúsaðstaðan væri fullnægjandi. Ráðið taldi sig sjá að þar væru nauðsynleg tæki og tól til veitingarekstrar og hafi tekið ákvörðun um að leigja húsnæðið undir kosningaskrifstofu sína. Leigusamningur aðila var útbúinn af löggiltum fasteignasala og leigumiðlara, þeim sem sýndi fulltrúum stefnda húsnæðið 5. mars 2021. 

Ráðið kvað sér hafa orðið ljóst við afhendingu á húsnæðinu að eldhúsaðstaða þess væri með öllu ófullnægjandi og í ósamræmi við yfirlýsingar af hálfu stefnanda fyrir og við samningsgerðina, eins og segir í dómi héraðsdóms. Forsendur fulltrúaráðsins að baki samningnum hafi þá verið brostnar og því verið ófært að nýta húsnæðið undir kosningaskrifstofu eins og verið hafi tilgangur leigunnar. Fulltrúaráðið hefði því rift leigusamningnum með formlegum hætti og skilað lyklum að húsnæðinu þann 8. apríl 2021. Ráðið kvaðst ekki hafa fengið nein viðbrögð við riftuninni, en henni var komið til Sjónvers 9. apríl 2021 fyrir milligöngu leigumiðlarans sem annaðist viðskipti aðila og samningsgerð.

Húsnæðið afhent í umsömdu ástandi og í samræmi við samning

Sjónver segir að húsnæðið hafi verið afhent í umsömdu ástandi og í fullu samræmi við leigusamninginn. Skilyrði til riftunar af hálfu leigjanda á grundvelli 60. gr. húsaleigulaga nr.  hafi því ekki verið uppfyllt og riftun ráðsins verið óheimil og ólögmæt. 

„Að virtum atvikum og efni samnings aðila þykir stefndi [fulltrúaráðið] ekki hafa sýnt fram á að stefnandi [Sjónver] hafi með ástandi eldhúss við afhendingu vanefnt samninginn á verulegan eða sviksamlegan hátt þannig að stefnda hafi verið heimilt að rifta samningnum á grundvelli 8. tölul. 1. mgr. 60. gr. húsaleigulaga. Því fellst dómurinn á það með stefnanda að riftun stefnda á samningi aðila með yfirlýsingu 8. apríl 2021 á þessum grundvelli hafi ekki verið heimil og lögmæt,“ segir í dómi héraðsdóms. 

Þá féllst dómurinn ekki heldur á það með ráðinu að Sjónver hafi fyrir tómlæti glatað rétti til að krefjast ógreiddrar leigu.

Enn fremur segir, að Sjónver hafi tekið við umráðum eignarinnar eigi síðar en 9. apríl 2021. Héraðsdómur segir, að enda þótt riftun fulltrúaráðsins á samningnum teljist ólögmæt gat Sjónver ekki krafist efnda af hálfu ráðsins samkvæmt aðalefni samningsins eftir að hann hafði tekið við húsnæðinu aftur.

Dæmt til að greiða fyrir aprílmánuð

Loks kemur fram, að Sjónver hafi ekki síðar en í aprílmánuði 2021 hafist handa við að bjóða húsnæðið öðrum til leigu með bindandi hætti. Tekið er fram að engin gögn liggi fyrir um þær tilraunir, en húsnæðið var ekki á sama tíma fulltrúaráðinu til reiðu í samræmi við aðalskyldu Sjónvers samkvæmt samningi þeirra. Fulltrúaráðið greiddi aldrei leigu fyrir aprílmánuð, sem var á gjalddaga 1. apríl 2021, og bauð ekki fram slíka greiðslu fyrr en málsókn þessi stóð fyrir dyrum.

„Með réttu hefði tryggingarfé átt að vera stefnanda aðgengilegt þegar stefndi gekk frá samningi aðila án þess að greiða stefnanda gjaldfallna leigu fyrir aprílmánuð, en það var það ekki svo sem að framan er rakið.

Að öllu framangreindu virtu verður stefnda gert að greiða stefnanda gjaldfallna leigu fyrir aprílmánuð 2021 ásamt dráttarvöxtum frá gjalddaga,“ segir í dómi héraðsdóms. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert