„Alltof margt starfsfólk hjá borginni“

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins. Ljósmynd/Dagmál

„Viðbrögðin virðast alltaf vera þau að skera niður þjónustu við fólk þegar illa gengur í rekstrinum,“ segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, um hagræðingartillögur meirihlutans í Reykjavík. 

„Maður saknar þess að sjá ekki frekar að ráðist sé virkilega í að skera niður í rekstrarkostnaði. Ekki er horfst í augu við þann sára vanda að við erum með alltof margt starfsfólk sem starfar hjá borginni og það er nokkuð sem bregðast þarf við,“ segir Hildur. 

Tillögurnar eru alls 92 talsins og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eiga eftir að leggjast betur yfir þær fyrir fund í borgarstjórn á þriðjudaginn.

Sjá fyrir sér að samþykkja margar tillögur

„Þetta eru margar tillögur og við erum að kynna okkur þær eins og aðrir. Margar þeirra eru þess eðlis að við sjáum fyrir okkur að samþykkja þær. En þegar við erum að horfa á 15,3 milljarða hallarekstur þá eru gríðarleg vonbrigði að við sjáum ekki enn frekari hagræðingu. Við horfum ekki á magn, við horfum á gæði. Tillögurnar eru margar en hver um sig hafa þær frekar lítil áhrif,“ segir Hildur og myndi vilja sjá meira hugrekki í þessum aðgerðum. 

Milljarður dugar skammt

„Þarna eru hagræðingaraðgerðir upp á rúman milljarð sem því miður dugar mjög skammt. Ég hefði viljað sjá hugrakkari og stærri aðgerðir um áþreifanlegan niðurskurð. Hægt væri að fresta stórum fjárfestingum sem snúa ekki að grunnþjónustu eða fara í tekjuskapandi aðgerðir. Það mætti ráðast meira á yfirbygginguna, hagræða í rekstrinum, ráðast í eignasölu og frekari rekstrarútboð. Það verða áherslur okkar sjálfstæðismanna á fundinum á þriðjudag,“ segir Hildur.

„Ég get einnig nefnt stafrænu umbreytinguna sem hefur verið mjög til umræðu. Á næsta ári er áætlað að eyða tæplega þremur og hálfum milljarði í fjárfestingu í stafrænni umbreytingu og öðru eins í rekstur á stafrænum kerfum.

Það er óljóst og loðið hverju þetta hefur skilað okkur síðustu árin. Þarna er til dæmis tækifæri til að staldra aðeins við, skera niður og fresta aðeins verkefnum. Á dögunum voru einnig fréttir af uppbyggingu miðborgarleikskóla og fjölskyldumiðstöðvar. Eina tilboðið sem barst í útboði hljóðaði uppá 2,6 milljarða, sem er auðvitað ískyggileg fjárhæð, og greinilega gríðarlegur hönnunarkostnaður sem fylgir hugmyndinni. Við myndum mun fremur vilja sjá hófstillta og hefðbundna leikskólabyggingu sem rúmar börnin sem þar eiga að vera. Sleppa öllu óþarfa prjáli á tímum sem þessum. 

Varðandi tekjuskapandi aðgerðir þá myndi ég vilja sjá meiri víðsýni og kraft í úthlutun atvinnulóða og íbúðarhúsa í borginni. Þannig stækkum við kökuna og fjölgum bæði íbúum og atvinnurekendum í borginni en við sjáum að nokkuð er um að fyrirtæki flýi til annarra sveitarfélaga þar sem lóðaframboð er betra og skattar lægri,“ segir Hildur Björnsdóttir enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert