Virkjanir á teikniborðinu

Hvammsvirkjun verður efsta virkjunin í neðri hluta Þjórsár. Á tölvuteikningu …
Hvammsvirkjun verður efsta virkjunin í neðri hluta Þjórsár. Á tölvuteikningu sjást stífla og lón og stöðvarhúsið á austurbakkanum.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, boðar uppbyggingu virkjana en síðastliðið vor „hafi loksins tekist að rjúfa níu ára kyrrstöðu“ í orkumálum.

Meðal annars boðar ráðherrann uppbyggingu vatnsaflsvirkjana og segir að framkvæmdir við Hvammsvirkjun í neðri hluta Þjórsár hefjist á næsta ári. Þá hafi ÍSOR verið falið að kortleggja jarðhitasvæði, ásamt því sem Orkuveita Reykjavíkur sé í startholunum með uppbyggingu. Hvað varðar gagnrýni á fyrirhugaða vindorkugarða sé einkennilegt ef enginn staður þyki koma til greina fyrir þá á Íslandi.

Sæstrengur úr myndinni

Spurður um þá gagnrýni að erlendum aðilum sé ekki svarað í stjórnkerfinu, þegar þeir sýna íslensku orkunni áhuga, segir Guðlaugur Þór erindin jafnan snúast um sæstreng. Hugmyndir þeirra um sæstreng séu hins vegar „fullkomlega óraunhæfar“ og hafi hann sem ráðherra lagt mikla áherslu á „að menn hætti að velta þeim fyrir sér“. Hvað varðar áform um útflutning á rafeldsneyti þurfi fyrst að tryggja orkuskipti á Íslandi en slíkt sé talið kalla á tvöföldun orkuframleiðslunnar.

Vinna við útgáfu virkjanaleyfis fyrir Hvammsvirkjun er á lokastigi en nærri hálft annað ár er liðið frá því Landsvirkjun sótti um leyfið. Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, segir að þegar umsóknin barst hafi legið fyrir fjöldi annarra umsókna sem fyrst hafi þurft að afgreiða. Telur hún að eðlilegur gangur hafi verið í málsmeðferð, eftir að umsóknin var tekin til greiningar. 

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert