Einhugur um að halda viðræðum áfram

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari.
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ekkert er umsamið fyrr en allt er umsamið, svo það er lítið hægt að segja fyrr en hlutirnir ýmist ganga eða ganga ekki,“ segir Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is.

Hann bætir þó við að vinnan á fundi Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins í gær hafi verið það þétt og góð að það hafi verið einhugur um að halda viðræðum áfram.

„Ég er mjög ánægður með fólkið í samninganefndunum og hvað það leggur hart að sér í þessari erfiðu vinnu.“

Tími til að hvílast og ráða ráðum sínum

Samningaviðræður milli Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins stóðu til miðnættis. „Nú er smá hlé á þessum fallega laugardagsmorgni, bæði svo að fólk geti hvílt sig, sem er oft mikilvægt áður en haldið er áfram, og síðan líka til að fólk geti ráðið ráðum sínum með sínu fólki.“

Samflot iðnaðarmanna og tæknifólks heldur svo áfram fundum klukkan 14 í dag, og búist er við að sá fundur standi til 18. 

Klukkan 16 mætir svo samninganefnd Starfsgreinasambandsins. Aðalsteinn segir meiri óvissu um það hve langur sá fundur verði. „Við sjáum til hvað hann stendur lengi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert