„Skárra en ég átti von á um tíma“

Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata.
Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er aldrei skemmtilegt eða þægilegt að fara í hagræðingaraðgerðir sem þessar en ég held að það væri óábyrgt af okkur ef við værum ekki að skoða alls staðar hvar við getum bætt reksturinn,“ segir Alexandra Briem, borgarfulltrúi Píarata, í samtali við mbl.is. 

Píratar eru í meirihluta í borgarstjórn með sína þrjá borgarfulltrúa en meirihlutinn hefur sent frá sér 92 tillögur til að minnka hallarekstur borgarinnar. 

„Við erum í erfiðu fjárhagslegu umhverfi eftir heimsfaraldurinn og í vaxtaumhverfinu. Ég held að það sé bara ábyrgt að fara í hagræðingaraðgerðir eins og fjárhagur borgarinnar er orðinn. Í þessum tillögum eru atriði sem mér þykir mjög óþægilegt að fara í en þetta er þó skárra en ég átti von á um tíma,“ segir Alexandra og hún segir að ágæt samstaða hafi verið um aðgerðirnar hjá flokkunum í meirihlutanum. 

„Já já. Engum þykir skemmtilegt að standa í svona löguðu en við erum sammála um að þetta sé nauðsynlegt og held að við stöndum saman í þessu. Á bak við þetta er töluverð vinna. Til að mynda hjá sviðum og skrifstofum sem komu með tillögur og hugmyndir og hjá okkur að meta og velja.

Við vonumst til þess að komast út úr þessu ástandi. Eftir því sem lengra líður frá faraldrinum taka hagkerfi heimsins vonandi betur við sér. Þá held ég að við verðum á betri stað,“ segir Alexandra Briem.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert