Bragi býr heima hjá fólki

Með þremur ferfættum í verkefni nærri Adra á Spáni. Oft …
Með þremur ferfættum í verkefni nærri Adra á Spáni. Oft fylgir gæludýrapössun húsvörslunni og kann Bragi því vel enda virðist hann njóta fullkomins trausts félaganna á þessari mynd. Ljósmynd/Aðsend

„Ég starfaði síðast á Íslandi sem öryggisvörður í nokkur ár, var að vinna hjá Securitas, en fór svo út í „house-sit“, þá var ég búinn að reyna að komast í þetta í töluverðan tíma,“ segir Bragi Jónsson í samtali við mbl.is, 66 ára gamall Íslendingur á eftirlaunum sem starfar einfaldlega við að búa heima hjá fólki þegar það er ekki heima.

Umfangsmiklar síður á lýðnetinu halda utan um þessa atvinnugrein sem líkast til væri lagi næst að kalla einfaldlega húsvörslu upp á íslensku. Bragi talar hins vegar bara um „house-sit“, enda innvígður í bransann, og við leyfum því að standa – í gæsalöppum þó.

Í góðum félagsskap í Marbella á Spáni með heimilishundinum Rocky. …
Í góðum félagsskap í Marbella á Spáni með heimilishundinum Rocky. Bragi er í þessu verkefni í þrjá mánuði núna á meðan íbúarnir eru á ferðalagi, fram til 5. janúar, og raunar var þetta sama hús hans fyrsta verkefni á sínum tíma. Ljósmynd/Aðsend

„Ætli það séu ekki ein átta ár síðan ég byrjaði í þessu,“ segir Bragi frá Marbella á Spáni þar sem hann gætir nú húss fyrir fólk sem er á ferðalagi, en reyndar var það einmitt þar sem hann tók sína fyrstu húsvörslu á sínum tíma. Hjá sama fólki meira að segja.

Einkunnagjöf á vefsíðunum

„Ég var þá í þessu í nokkra mánuði, fékk svo eitt „house-sit“ um veturinn, fór svo á flakk og svo heim til Íslands um vorið,“ rifjar Bragi upp sem datt þá aftur inn hjá Securitas og starfaði hjá öryggisgæslufyrirtækinu næstu sumur. „Þeir voru svo góðir að taka mig inn á sumrin og ég var þar ein þrjú sumur til,“ heldur Bragi áfram sem einnig starfaði rúman áratug á íslenskum hótelum, var næturvörður á Hótel Sögu heitinni svo eitthvað sé nefnt.

„Svo fer ég á eftirlaun í febrúar á þessu ári og hætti að vinna og ákveð þá að stökkva á þetta og fara alfarið út í „house-sitting“,“ segir Bragi frá og má segja að hann hafi með því slegið tvær flugur í einu höggi, kominn á eftirlaun og í aðstöðu til að ferðast um heiminn með ókeypis þak yfir höfuðið. Á vefsíðunum sem koma húsgæslufólki á framfæri er nefnilega umsagnakerfi með einkunnagjöf viðskiptavinanna og þar er Íslendingurinn kominn í hæstu hæðir og fær því nóg að gera.

Frá Securitas-árunum. Bragi hefur marga fjöruna sopið við nætur- og …
Frá Securitas-árunum. Bragi hefur marga fjöruna sopið við nætur- og öryggisvörslu, var til dæmis um árabil næturvörður á Hótel Sögu heitinni. Ljósmynd/Aðsend

„Ég byrjaði á Spáni og var þar fyrstu árin nema hvað að 2020 fer ég svo til Bretlands þar sem ég fékk tvö „house-sit“ og annað þeirra var hjá konu sem ég hafði verið hjá áður og hún vildi endilega fá mig aftur og borgaði fyrir mig flugfarið frá Íslandi,“ segir hann frá.

En hvernig virka þessar vefsíður?

„Þú setur bara upp prófíl [upplýsingar um viðkomandi] og svo auglýsa húseigendur sem vantar „house-sittera“. Oftast er þetta fólk sem er með dýr þótt það komi alveg fyrir að það séu engin dýr. Maður sækir svo bara um og er þá í samkeppni við alla hina sem eru að sækja um. Fyrst var ég bara með meðmæli frá vinnuveitanda en núna er ég kominn með 35 fimm stjörnu meðmæli,“ segir Bragi og má þar með teljast eftirsóttur „house-sitter“ á alþjóðavettvangi.

Þrír mánuðir í Marbella

„Ég er búinn að sitja fyrir fólk aftur og aftur og nú er meira að segja fólk búið að panta mig fram á næsta ár í tveimur tilfellum, annars vegar í apríl og hins vegar næsta sumar,“ segir Bragi og bætir því við að tímabil verkefnanna séu ærið misjöfn, hann hafi nýverið fengið töluvert af styttri húsvörslum en nú sé hann í þriggja mánaða verkefni í Marbella.

Gripið í bakstur í Istanbúl í Tyrklandi með þarlendum. Bragi …
Gripið í bakstur í Istanbúl í Tyrklandi með þarlendum. Bragi ferðaðist landleiðina frá Varsjá í Póllandi til Tyrklands og til baka. Nýtti hann sér þá síðuna couchsurfing.com til að fá höfði sínu hallað. Ljósmynd/Aðsend

„Þessi hjón sem ég er að passa fyrir núna eru frá Hondúras og Bandaríkjunum og þau fara einu sinni á ári og heimsækja ættingja sína í þessum löndum og eru þá þrjá mánuði í burtu. Ég er búinn að vera hérna tvisvar fyrir þau,“ segir hann.

Felst þetta þá bara í því að vera á staðnum?

„Ég er auðvitað öryggisvörður hérna líka, þetta er öryggisgæsla, en svo þarf líka að sjá um dýr fólks. Hérna voru til dæmis tveir kettir og einn hundur en nú er bara annar kötturinn eftir,“ segir Bragi sem hefur mest annast fjóra hesta, þrjá stóra hunda og fimm ketti samtímis, klárlega í mörg horn að líta með svo góðan félagsskap. Þetta var í Danmörku.

En hefur hann þá einhvern tímann lent í innbrotsþjófum eða komist í hann krappan á annan hátt?

„Nei,“ svarar Bragi, „þetta hefur allt verið mjög rólegt en ég hef misst einn hund og einn kött. Hundurinn var orðinn mjög gamall og það þurfti að aflífa hann og það var allt gert bara í samráði við eigendur,“ segir húsvörðurinn sem verður í Marbella til 5. janúar. Hvað skyldi þá taka við?

Bragi stundar GPS-miðaða fjársjóðsleitarleikinn Geocaching í frístundum.
Bragi stundar GPS-miðaða fjársjóðsleitarleikinn Geocaching í frístundum. Ljósmynd/Aðsend

Þá fer hann í þriggja vikna verkefni í Bretlandi hjá manni sem hann kannast við frá fyrri verkum en eftir það ætlar Bragi að taka sér frí. „Þá ætla ég til Filippseyja og Taílands og svo er ég ekki alveg búinn að gera upp við mig hvort ég kem til Evrópu aftur eða hvort ég fer til Ástralíu,“ segir Bragi enda þekkja „house-sitting“-vefsíðurnar engin landamæri, þeir sem veljast til slíkra verkefna mega búast við að sinna þeim víða um heim.

Ávinningur húseigenda meiri

Eitt er þó nauðsynlegt að fram komi, sem er að „house-sitting“-verkefnin eru ólaunuð. Sá sem þeim sinnir býr bara frítt á staðnum og auðvitað hljóta margir að líta á blessuð dýrin sem bónus fylgi þau með. Hvað með fæði þá?

„Það er alls ekki alltaf, þetta er svona kaup kaups og ég segi nú oftast að það sé meiri vinningur í þessu fyrir húseigendur,“ segir Bragi, „þeir hafa fullkomið öryggi og einhver sér um dýrin þeirra. Ég byrjaði til dæmis á að borga 300 evrur [tæplega 45.000 íslenskar krónur] bara til að komast inn í kerfið,“ heldur hann áfram.

Við húsvörslu á Englandi með einum íbúanna sem horfir ábúðarfullum …
Við húsvörslu á Englandi með einum íbúanna sem horfir ábúðarfullum augum á íslenska gestinn. Ljósmynd/Aðsend

Það hafi þó heldur betur borgað sig þar sem hjónin í Marbella mæltu með honum við vinafólk sitt sem hann fékk svo verkefni hjá og það fólk greiddi honum upphæð sem borgaði upp 300 evrurnar og meira til. Slíkt sé þó sjaldgæft. Oftast biðji Bragi þó um að fá ferðakostnað greiddan og þyki það oftar en ekki sjálfsagt.

„Svo er nú oft skilinn eftir matur handa manni og jafnvel bjór. Á einum staðnum hérna á Spáni skildi fólkið eftir nógan mat handa mér og átján lítra af bjór fyrir nokkurra vikna pössun,“ segir Bragi Jónsson að lokum sem sannarlega kann að njóta eftirlaunaáranna með þægilegri innivinnu, dýrapössun og opnum dyrum úti um allan heim.

Langar þig að passa hús og dýr úti í heimi? Kíktu á síðuna Housesitmatch.com

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert