Óvelkominn maður veittist að lögreglu

Um 120 mál voru skráð hjá lögreglu í nótt og …
Um 120 mál voru skráð hjá lögreglu í nótt og 8 vistaðir í fangageymslu. Mynd úr safni. mbl.is/Ari

Afskipti voru höfð af manni í annarlegu ástandi þar sem hann var óvelkominn í húsi. Lögregla bauðst til að aka manninum heim, sem hann þáði. Í lögreglubifreiðinni fór maðurinn að veitast að lögreglumönnum og hóta þeim. Maðurinn var þá handtekinn og færður á lögreglustöð þar sem hann var vistaður sökum ástands. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. 

Kona var handtekin og vistuð í fangageymslu vegna annarlegs ástands, en hún er sögð hafa verið að ráðast á fólk og þurfti lögregla að hafa af henni ítrekuð afskipti.

Lá rænulaus í runna 

Tilkynnt var um mann liggjandi í runna í miðbæ Reykjavíkur. Hafði hann dottið í runna með litla rænu sökum ölvunar. Maðurinn var fluttur með sjúkrabifreið til aðhlynningar á Bráðadeild. 

Annar ofurölvi maður var handtekinn og vistaður í fangageymslu um kvöldmatarleyti í gær. Skömmu seinna var tilkynnt um ölvaðan mann að angra viðskiptavini á veitingahúsi. Var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu. 

Þá var tilkynnt um hnupl út skartgripaverslun í miðbænum og staðfest innbrot í matvöruverslun. Ekki liggja fyrir frekari upplýsingar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert