Betri greining mögulega leitt til betri niðurstöðu

Guðmund­ur Björg­vin Helga­son rík­is­end­ur­skoðandi og Jarþrúður Hanna Jó­hanns­dótt­ir sviðsstjóri frá …
Guðmund­ur Björg­vin Helga­son rík­is­end­ur­skoðandi og Jarþrúður Hanna Jó­hanns­dótt­ir sviðsstjóri frá Rík­is­end­ur­skoðun á fundi hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi segir skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka, snúast um ferðalagið, ekki áfangastaðinn. Þrátt fyrir að tekið sé fram í skýrslunni að ekki sé dregið í efa að salan hafi verið ríkissjóði hagfelld, þá sé ekki víst að ferðalagið hafi verið hagfellt og um það fjalli skýrslan.

Þetta kom fram í máli Guðmundar á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun.

Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem situr í nefndinni, spurði af hverju færi ekki meira fyrir fjárhagslegum markmiðum og niðurstöðum sölunnar gagnvart ríkissjóði í skýrslunni. Vildi hún meina að það væri meginniðurstaða skýrslunnar að salan hefði verið hagfelld.

Guðmundur sagði það ekki rétt. „Það þarf að lesa skýrsluna með góðum skammti af sköpunargáfu til að lesa það út að þetta sé meginniðurstaðar skýrslunnar.“

Það væri einfaldlega ekki verið að fjalla um áfangastaðinn í skýrslunni. 

„Skýrsla Ríkisendurskoðunar er um framkvæmdina, skýrsla Ríkisendurskoðunar er um ferðalagið, ekki áfangastaðinn. Þetta er ekki meginniðurstaða, þetta er fyrirvari á gagnrýnina sem kemur á ferðalagið, um framkvæmdina,“ útskýrði hann.

Nokkrar mínútur að átta sig á eftirspurn

Þá spurði Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem einnig situr í nefndinni, hvers vegna svo mikið hefði verið fjallað um svokallað Excel-klúður í skýrslunni og hver tilgangurinn væri að upplýsa um það ferli allt saman, þegar það hefði ekki haft áhrif á lokaniðurstöðu sölunnar.

Guðmundur sagði tilganginn meðal annars að draga fram og sýna á hve skömmum tíma Bankasýslan taldi sig hafa áttað sig á því hver heildareftirspurnin væri, en miðað við gögnin hafi það aðeins verið einhverjar mínútur. Hann benti jafnframt á, að líkt og fram kæmi í skýrslunni, væri talið hugsanlegt að betri greining á tilboðabókinni hefði getað leitt til enn betri niðurstöðu.

Hildur sagði að sér þætti fullmikið horft til þessara skjala frá Bankasýslunni sem hefðu verið mistök. Sagði hún að of margar setningar í skýrslunni færu í að búa til óþarfa ryk sem hefði valdið flóknari umræðu.

Samningsstaða hefði verið betri

Guðmundur sagðist telja það mjög brýnt að fram kæmu upplýsingar um hvað greining tilboðabókarinnar sýndi fram á. Um væri að ræða ferli sem ætti að sýna fram á verðmyndun.

„Við erum bara að reyna að greina tilboðabókina og lítum á það sem okkar skyldu. Við erum ekki að reyna að villa um fyrir umræðunni með þessu. Við erum bara að upplýsa um hvað það var sem tilboðabókin sýnir fram á. Því gögn málsins bera með sér að þeir sem unnu við framkvæmd sölunnar voru ekki að horfa á þessar upplýsingar með sama hætti og við höfum greint. Og rökstutt mat til ráðherra staðfestir það.“

Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir, sviðsstjóri hjá Ríkisendurskoðun, sem sat fyrir svörum ásamt Guðmundi, bætti því við að með því að lýsa ferlinu væri verið að leggja drög að þeirri niðurstöðu að Bankasýslan hefði ekki haft fullnægjandi upplýsingar um heildareftirspurn í ferlinu þegar ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð var tekin.

Þá hefði samningsstaða gagnvart erlendum aðilum verið önnur ef fullnægjandi upplýsingar hefðu legið fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert