Hart tekist á um málefni öryrkja á Alþingi í dag

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Lögfestu nú strax samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Með því römbum við út mannlegum hindrunum gagnvart fötluðu og veiku fólki. Stjórnarskráin, lög og reglur eru brotnar kerfisbundið á fötluðu og veiku fólki. Er ekki kominn tími til að hætta því?“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, í sérstakri umræðu um málefni öryrkja á Alþingi í dag þar sem heitar umræður áttu sér stað.

Meðal þess sem rætt var um í umræddum dagskrárlið var m.a. af hverju ekki væri gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir að öryrkjar þurfi að greiða úr eigin vasa fyrir endurhæfingu og þjónustu sjúkraþjálfara og sérgreinalækna sökum þess að samningar eru lausir.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags-og vinnumarkaðsráðherra, sagði að ábyrgð samningsaðila um að koma samningum um þjónustu í betri farveg væri mikil.

„Þar tel ég skipta miklu máli að magn og gæði þjónustu séu vel skilgreind, því við verðum að vita í hvað peningarnir eru að fara.“

Þingið gefur öryrkjum ekki færi á að bjarga sér

Á meðal þeirra sem tóku til máls í umræðunni var Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. Sagði hún þingið ekki gefa einstaklingum, öryrkjum, færi á að bjarga sér sjálf og átti hún þar við kjör þeirra.

„Við erum ekki að gefa einstaklingum, öryrkjum, færi á að bjarga sér sjálf. Við festum þau kyrfilega í þunglyndi, vanlíðan og depurð í þessari ógeðslegu rammgerðu fátæktargildru sem hefur verið byggð um þau í mörg ár. Það þarf umbætur og það þarf að gera það strax.

Við getum ekki lengur horft upp á það að við þurfum að kalla hér á sérstaka desemberuppbót í desember þegar við vitum það að þessi þjóðfélagshópur lifir við sára neyð. Hann hefur ekki tíma og hann hefur ekki ráð á því að bíða lengur. Það er ekki eftir neinu að bíða! Hér er fjárveitingarvaldið, hér er löggjafinn, hér erum við til að vinna fyrir fólkið í landinu.“

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir öryrkja vera fastir kyrfilega …
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir öryrkja vera fastir kyrfilega í þunglyndi, vanlíðan og depurð. Skjáskot/Alþingi.is

Tillögurnar eru kaldar kveðjur til sjúklinga

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, tók einnig til máls og sagði hann breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið vera sláandi, sé litið til þeirrar stöðu sem upp er komin í málefnum öryrkja.

„Þar er ekki gert ráð fyrir auknum fjárheimildum vegna samninga við sérgreinalækna og sjúkraþjálfara. Þetta eru sláandi fréttir, þetta eru kaldar kveðjur til þessara fagstétta og til sjúklinga og eflaust ein af orsökum þess að María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, sem er mjög hæfur og vandaður embættismaður, hefur sagt upp störfum og vísað til fjársveltis.“

Segir hann heilbrigðisráðherra engu geta svarað um framangreinda stöðu og að fjármálaráðherra sé fastur í sýndarveruleikaheimi.

„Hæstvirtur heilbrigðisráðherra gat engu svarað um þessi mál hér áðan, honum fannst þetta bara allt ákaflega leiðinlegt. Og við vitum alveg hvernig það er með hæstvirtan fjármálaráðherra. Hann er fastur í sýndarveruleikaheimi þar sem Ísland er stéttarlaust samfélag og heilbrigðiskerfið er full fjármagnað.

En hvað segir hæstvirtur félags- og vinnumarkaðsráðherra. Hvernig ætlar hann að koma í veg fyrir að öryrkjar og langveikt fólk þurfi að greiða úr eigin vasa fyrir þjónustu sjúkraþjálfara og sérgreinalækna þegar það stendur augljóslega ekki til að semja við þessar stéttir á næsta ári?“ spurði hann og bætti við að þörf sé á skýrum svörum.

Fátt um svör

Að umræðum loknum gagnrýndi Jóhann Páll þau svör sem félags- og vinnumarkaðsráðherra gaf.

„Fyrir þá sem ekki vita er það þannig að þegar sérstök umræða fer fram þá fær hæstvirtur ráðherra að vita fyrirfram hverjar spurningarnar eru þannig að hæstvirtur ráðherra getur gefið sér tíma og ráðrúm til að móta skýr svör við þeim.

Sú meginspurning sem háttvirtur þingmaður Guðmundur Ingi Kristinson lagði upp með og fleiri þingmenn kölluðu sérstaklega eftir svörum við í umræðunni voru þessar hérna:

Hvers vegna hefur ráðherra ekki gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir að öryrkjar þurfi að greiða úr eigin vasa fyrir endurhæfingu og þjónustu sjúkraþjálfara og sérgreinalækna sökum þess að samningar eru lausir. Við fengum engin svör frá ráðherra í dag.“ 

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi heilbrigðisráðherra, fjármálaráðherra og félags- …
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi heilbrigðisráðherra, fjármálaráðherra og félags- og vinnumálaráðherra á Alþingi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert