Dæmdur fyrir að aka á ofsahraða á tvo vegfarendur

Slysstaður­inn við Glerárgötu.
Slysstaður­inn við Glerárgötu. mbl.is/Þ​or­geir Baldursson

Landsréttur hefur staðfest fjögurra mánaða skilorðsbundinn dóm yfir karlmanni sem ók á 110 km/klst hraða um Glerárgötu á Akureyri áður en hann missti stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hann keyrði á hjólreiðamann og gangandi vegfarenda og hund hans. Hlaut hjólreiðamaðurinn fjöláverka, lendarbrot, herðablaðsbrot, spjaldbeinsbrot og mjaðmarbeinsbrot, mörg rifbrot og rof á þvagblöðru. Hinn gangandi hlaut heilahristing auk þess sem hundurinn dó.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa einnig verið undir áhrifum slævandi lyfja, en dómurinn tók ekki undir að tekist hefði að sanna það með óhyggjandi hætti að svo hafi verið, en niðurbrotsefni í blóði mannsins samræmdust því að hann hefði neytt lyfseðilsskyldra lyfja en ekki ólöglegra lyfja.

Í dóminum kemur fram að maðurinn hafi ekið langt yfir leyfilegum hraða, en hann er 50 km/klst á þessum stað. Kenndi maðurinn því um að meginorsök þess að hann missti stjórn á bifreiðinni væru hjólför í slitlagi vegarins. Í dómi Héraðsdóms, sem Landsréttur staðfesti, er þessum rökum alfarið hafnað.

„Sú skýring ákærða að hjólför í slitlagi hafi verið meginorsök þess að hann missti stjórn á bifreið sinni er haldlaus. Yfirborð vegarins var ekki frábrugðið því sem almennt þekkist á Íslandi eftir vetrarakstur á negldum hjólbörðum. Ákærða bar, eins og öðrum ökumönnum, að haga akstri sínum í samræmi við aðstæður. Er hafið yfir vafa að ofsahraði ákærða á þessari aðalakbraut í þéttbýli Akureyrar var meginorsök þess að hann missti stjórn á aflmikilli bifreið sinni. Vanbúnaður hjólbarða bifreiðarinnar, sem ákærði ber ábyrgð á sem umráðamaður hennar og ökumaður, átti þar einnig hlut að máli,“ segir í dóminum.

Meðal gagna málsins voru upptökur úr öryggismyndavélum sem sýndu bifreiðina á nokkrum stöðum við Glerárgötu. Fyrst um sinn á umferðarhraða, en er svo ekið fram úr öðrum bifreiðum og geysist áfram áfram en hún snarsnýst og kastast upp á gangstétt. Kemur fram í dóminum að hann hafi í framhaldinu farið í veg fyrir aðra bifreið sem ekið var í sömu akstursstefnu og á vegfarendurna tvo og hundinn.

Landsréttur sýknaði manninn af því að hafa með athæfi sínu stofnað óákveðnum hagsmunum ótiltekins fjölda vegfarenda í augljósa hættu sem talin sé almannahætta, líkt og kom fram í ákæru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert