Dæmi um að fólk tapi tugum milljóna

Netsvindl hefur færst í aukana.
Netsvindl hefur færst í aukana. Ljósmynd/Unsplash

Daglega verjast íslensk fjármálafyrirtæki svikurum sem reyna að brjótast inn í heimabanka eða rafræn skilríki einstaklinga.

Í hlaðvarpsþættinum Hvítþvottur, sem fjallar um peningaþvætti, segir Brynja María Ólafsdóttir, sérfræðingur í regluvörslu Landsbankans að netsvik sem þessi séu sífellt að færast í aukana. Dæmi séu um að einstaklingar hafi tapað ævisparnaðinum vegna slíkra fjársvika.

„Þetta verða alltaf stærri og stærri mál,“ segir Brynja um fjársvik í þættinum.

Að sögn Brynju leita glæpahópar að veikum blettum og herja jafnvel á fólk sem hefur nýlega glímt við erfiðleika á borð við starfsmissi eða andlát ættingja. Dæmi eru um að fórnarlömb fjársvika berist boð frá óprúttnum aðilum um aðstoð við að endurheimta tapað fé gegn greiðslu í þeim tilgangi að svíkja fé af fórnarlömbunum á nýjan leik.

„Mér finnst enn þá erfiðara að horfa upp á þegar fólk fellur í svoleiðis gryfjur,“ segir hún.

Svik í gegnum samfélagsmiðla eru nú langalgengust. Lögregla hefur nýlega varað við svikum af þessu tagi og fyrr á þessu ári varaði tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens við aðilum sem þóttust vera hann á samfélagsmiðlum í því skyni að svíkja fé af fólki.

Aðferðirnar eru margar en svikin fara meðal annars fram með þeim hætti að svikarar taka yfir aðgang einstaklinga að samfélagsmiðlum á borð við Facebook eða Instagram og senda aðilum á vinalista þeirra skilaboð. Í skilaboðunum óska þeir eftir símanúmeri og skömmu síðar eftir kóða sem berst í SMS skilaboðum. Með þessum hætti freista svikarar þess að komast fram hjá þeim öryggisþáttum sem fjármálafyrirtæki hafa komið upp og öðlast aðgang að heimabanka viðkomandi.

„Það sem er erfiðast í vörnum gegn fjársvikum er í rauninni að verjast þessu mannlega,“ segir Brynja.

Sigurður Páll Guttormsson, þáttastjórnandi Hvítþvotts.
Sigurður Páll Guttormsson, þáttastjórnandi Hvítþvotts. Ljósmynd/Aðsend

Nota rafmyntir 

Glæpahópar finna sífellt nýjar leiðir til þess að stunda fjársvik, og er ein af þeim notkun rafmynta. Þær koma nú við sögu í flestum svikamálum og segir Brynja nánast ómögulegt að endurheimta fé sem svikið er af fólki í gegnum slíkar myntir.

Þessi fullyrðing Brynju fær stoð í skýrslu Europol þar sem mat er lagt á hættuna sem stafar af skipulagðri glæpastarfsemi næstu árin. Þar kemur fram að rafmyntir séu gjarnan notaðar af fjársvikurum og að þeir hafi í auknum mæli herjað á einstaklinga með fölskum vefsíðum sem innihalda gylliboð um fjárfestingartækifæri í rafmyntum.

Brynja segir grátlegt að horfa upp á einstaklinga með litla þekkingu taka áhættu á fjárfestingum sem eru einungis settar upp í því skyni að svíkja af þeim fé.

Hún segir fólk gjarnan upplifa skömm eftir að hafa orðið fórnarlömb fjársvika en hvetur fólk til að tilkynna strax til lögreglu og síns viðskiptabanka gruni það svik, því ef tilkynnt er um fjársvik um leið og þeirra verður vart geti mögulega verið hægt að ná fjármunum til baka.

„[Það] getur verið mínútuspursmál “ segir Brynja.

Þátturinn er kominn inn á allar helstu hlaðvarpsveitur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert