Allt í skrúfunni í Grafarvoginum

Fjöldahjálparstöð var opnuð á Kirkjubæjarklaustri en björgunarsveitir hafa staðið í …
Fjöldahjálparstöð var opnuð á Kirkjubæjarklaustri en björgunarsveitir hafa staðið í ströngu víðs vegar um landið í dag. Ljósmynd/Landsbjörg

„Það er allt í skrúfunni í Grafarvoginum núna,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, en hátt í tíu bifreiðar sitja þar fastar á Víkurveginum niður að Egilshöll. Að sögn hans eru björgunarsveitarmenn á vettvangi.  

„Það er byrjað að þyngjast færð í efri byggðunum, eins og upp í Mosfellsbæ, og einhverjir bílar eru að lenda í vandræðum þegar þeir eru að fara af Vesturlandsveginum,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út víðs vegar um landið vegna óveðursins. Björgunarfélag Hornafjarðar sótti t.a.m. fólk í Almannaskarð. Þá þurfti að opna fjöldahjálparstöð á Kirkjubæjarklaustri.

„Það voru 34 sem leituðu skjóls þar. Búið er að finna gistingu fyrir þann hóp á hótelum í nágrenninu og Vegagerðin er að ryðja að þeim hótelum svo fólk geti farið þangað.“

Þá er björgunarsveitin í Varmahlíð að fara upp á Öxnadalsheiði. „Þar er bíll sem er búinn að vera fastur í tvo tíma. Það verkefni er í gangi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert