Gyrði sig í brók

Vestmannaeyjastrengur 3 tekinn í land í Eyjum 12. júlí 2013. …
Vestmannaeyjastrengur 3 tekinn í land í Eyjum 12. júlí 2013. Hann gerir Eyjamönnum nú skráveifu í annað sinn á skömmum ferli sínum og krefst bæjarstjóri úrbóta. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

„Við förum fram á það að hér sé tryggt rafmagn til að samfélagið gangi, það er forgangsmál og það er það sem Landsnet hefur sagt að þeir muni gera,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, sem mbl.is náði einungis í örstutt spjall fyrr í kvöld vegna fundasetu.

Umræðuefnið er sem fyrr bilun í Vestmannaeyjastreng 3 sem upp kom á mánudag og mbl.is ræddi við Steinunni Þorsteinsdóttur, upplýsingafulltrúa Landsnets, í kvöld.

Bendir Íris á að Landsneti beri lagaleg skylda til að tryggja varaafl fyrir svokallaða forgangsorku, það er að segja þá orku sem lagalega skyldan nær til. Hins vegar er svo flokkurinn skerðanleg orka sem Landsneti ber ekki skylda til að tryggja afhendingu á nema dreifikerfi gangi hnökralaust og engum bilunum sé til að dreifa.

„Þeir sem kaupa forgangsorkuna eiga kröfuna, þó að staðan sé eins og hún er,“ útskýrir bæjarstjóri, „þess vegna er talað um það sem heitir N mínus einn. Það þýðir að tvær leiðir séu alltaf fyrir hendi, tvennt þarf að bila til þess að þú verðir rafmagnslaus og í Vestmannaeyjum er ekki N mínus einn tenging, það er bara ein flutningsleið.“

Játar Íris þó að Vestmannaeyjastrengur 1 sé vissulega á sínum stað. Hann sé þó rúmlega 60 ára gamall og beri að hámarki átta megavött á meðan flutningsgeta strengsins sem nú er í lamasessi sé 60 megavött.

Rafmagnsmál í ólestri á landinu

„Nú er almannavarnanefnd Vestmannaeyja búin að funda þrisvar sinnum, þar á meðal með Landsneti og við verðum bara að treysta því að þeir [Landsnet] afhendi þessa orku, það er forgangurinn núna auk þess sem við bíðum eftir áætlun um hvernig menn ætli sér að gera við þetta, hvaða tíma þar er verið að tala um og hver næstu skref séu,“ segir Íris.

Vestmannaeyingar fái nú díselolíuknúnar vélar frá Landsneti til rafmagnsframleiðslu og telur bæjarstjóri þeim ekki duga færri en sex til sjö slíkar vélar til að anna raforkuþörf eyjanna. Þrjár séu þegar komnar auk þess sem HS veitur séu með vélar í sínu húsnæði í Eyjum.

„Þessi rafmagnsmál eru bara í ólestri á landinu,“ heldur Íris áfram, „við erum búin að vera í töluverðri umræðu við Landsnet vegna þessa varaafls. Árið 2020 var stofnaður vinnuhópur með fulltrúum hagsmunaaðila í Eyjum. Við áttum samtal við ráðherra og fórum svo þaðan í Landsnet til að ræða möguleika á því að koma upp föstu varaafli í Vestmannaeyjum,“ segir hún.

Boltinn hjá Landsneti

Vinnuhópurinn hafi þá bara ætlað að fara í málið og sjá um framkvæmdina nema hvað Landsnet hefði þurft að greiða fyrir uppsetningu varaaflsins. „Landsnet taldi að þeir gætu sinnt þessu með örðum hætti, meðal annars með færanlegum varaaflsvélum,“ segir Íris.

Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri segir að nú þurfi að tryggja rafmagn …
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri segir að nú þurfi að tryggja rafmagn og svo þurfi menn að fara að gyrða sig í brók. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

„Boltinn er því hjá þeim núna. En við Eyjamenn höfum talað um þetta í mörg ár við þingmenn, ráðherra og Landsnet þannig að við skulum vona að þetta gangi, en ástæðan fyrir því að við erum í þessum sporum í dag er að það er ekki búið að klára þennan streng sem í daglegu tali er kallaður VM4, strengur númer tvö er ónýtur og þessi gamli flytur mjög lítið þannig að við erum bara með þennan VM3 sem nú er bilaður og er að bila núna í annað skiptið, tíu ára gamall strengur,“ segir Íris enn fremur.

Nýja strengnum hafi verið flýtt um tvö ár, meðal annars vegna þrýstings frá Eyjamönnum en betur megi ef duga skuli. „Nú er verið að keyra allt á olíu sem hægt er að keyra á olíu til að halda samfélaginu gangandi, það er auðvitað alveg galið. En þetta er staðan, nú þarf að tryggja rafmagnið og svo verða menn bara að fara að gyrða sig í brók og laga þetta flutningskerfi,“ segir Íris.

Hvað ef allt fer í handaskolum?

En hvernig er brugðist við ef nægilegt rafmagn skilar sér ekki til Vestmannaeyja svo dugi til að reka allt samfélagið? Hvað er skert og hver annast þær skerðingar?

„Það gera sjálfsagt HS veitur eftir einhverju kerfi, heimilin ganga auðvitað fyrir geri ég ráð fyrir. Oft er það þannig að stór fyrirtæki kaupa skerðanlega orku og þegar eitthvað bjátar á detta þau út. En þegar um forgangsorku er að ræða eru allir að borga fyrir sama forganginn og hvernig á þá að skerða? Heimilin eru auðvitað það síðasta sem á að skerða en hvað á að gera þegar við erum með tugmilljarða loðnuvertíð í gangi í Vestmannaeyjum?“ spyr bæjarstjórinn.

Önnur mynd frá frágangi VM3 sumarið 2013.
Önnur mynd frá frágangi VM3 sumarið 2013. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Hún ítrekar að lokum að nú ríki ástand í Eyjum sem ekki hefði þurft að koma upp, tvær raforkuflutningaleiðir hefðu þurft að vera komnar í gagnið eða þá fast varaafl í eyjunum. „Þessar vélar hefðu því getað nýst vítt og breitt um landið í stað þess að nú þarf að fara með stóran hluta þeirra til Vestmannaeyja. Og þessi viðgerð er ekki að fara að eiga sér stað á morgun eða hinn.

Við erum alltaf að slökkva einhverja elda á Íslandi, fara í einhverjar neyðaraðgerðir og kaupa allt á hæstu kjörum þegar við erum komin í vandræði. Alltaf þarf eitthvað að gerast áður en farið er í að laga hlutina,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, og vonar að samfélaginu þar verði tryggð öruggari orkuaðföng í framtíðinni eftir skakkaföll nú og vorið 2017.

Hún bætir því við í blálokin að fara þurfi í göng milli lands og eyja, þá gætu allir þessir innviðir verið þar, svo sem vatnslögn og rafmagn og allt aðgengi að því auðveldara ef eitthvað bilar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert