„Búnir að vera um allan bæ“

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins átti annríkt í dag vegna lekamála þegar niðurföll …
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins átti annríkt í dag vegna lekamála þegar niðurföll stífluðust eða fráveitukerfi höfðu ekki undan regninu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum búnir að vera um allan bæ bara, eða höfuðborgarsvæðið sem sagt, ætli það séu ekki komin tólf svona útköll,“ segir Davíð Friðjónsson, aðstoðarvarðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, inntur eftir stöðunni í lekamálum í dag.

Eins og mbl.is greindi frá síðdegis flæddi inn í Skautahöllina í Laugardal á þriðja tímanum í dag þegar niðurföll fyrir utan bygginguna höfðu ekki undan í þeirri úrkomu sem þá var. Kvað Egill Eiðsson forstöðumaður ekki hafa verið um mikið vatn að ræða og engar sjáanlegar skemmdir hafa orðið.

Heldur tekið að hægjast um

Davíð aðstoðarvarðstjóri segir það sama hafa verið uppi á teningnum hjá hans fólki í dag, vatn hafi farið inn í byggingar vegna stíflaðra niðurfalla eða fráveitukerfa sem hreinlega höfðu ekki undan í vatnsveðrinu.

Eitthvert tjón hafi orðið, svo sem í lagergeymslum verslana, en slökkvilið hefur annars takmarkaðar upplýsingar um það. Segir Davíð liðið hafa sinnt útköllum hvort tveggja í heimahúsum sem atvinnuhúsnæði en nú undir kvöld hafi heldur tekið að hægjast um eftir dag sem að mestu hafi snúist um lekaútköll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert