Færðu öllum leik- og grunnskólum bækur

Bækurnar um Litla fólkið og stóru draumana hafa verið þýddar …
Bækurnar um Litla fólkið og stóru draumana hafa verið þýddar víða um heim. Alls verða 30 titlar komnir út á íslensku fyrir lok þessa árs.

Íslandsbanki, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Toyota á Íslandi hafa fært öllum skólum og leikskólum landsins bókagjöf í samstarfi við útgáfufélagið Stóra drauma. Um er að ræða sex barnabækur úr bókaflokknum um Litla fólkið og stóru draumana.

Fyrir rúmu ári færði útgerðar­félagið Brim skólum og leikskólum landsins sambærilega gjöf í samstarfi við útgáfufélagið.

Í bréfi til stjórnenda skólanna fylgja kveðjur til allra barna og ungmenna á Íslandi með hvatningu til þess að auka lestur á íslensku. Þá kemur fram að markmiðið með bókunum sé að að standa vörð um íslenska tungu, enda sé hún ein af grunnstoðum menningararfs þjóðarinnar.

Bókaflokkurinn hefur að geyma sögur sem flytja boðskap af einstaklingum sem látið hafa drauma sína rætast og haft um leið jákvæð áhrif á fólk víða um heim. Persónurnar sem fjallað er um koma úr ólíkum áttum, lista- og menningargeiranum, íþróttum, vísinda- og menntasamfélaginu og fleira. Í fyrrnefndu bréfi til stjórnenda skólanna kemur fram að lestur bókanna og umræða um þær séu til þess fallin að vekja börn til umhugsunar um jafnréttismál, náttúruvernd, mikilvægi vísindastarfs, listsköpun og mannúðarmál og geti þar með nýst sem mikilvægt innlegg í kennslu. Útgáfufélagið hefur áður kynnt að markmiðið með útgáfunni sé að vekja áhuga ungra lesenda eða áheyrenda á mikilvægum málefnum samtímans, svo sem umhverfisvernd, jafnréttismálum, tjáningarfrelsi og öðru því sem ber fyrir augu og eyru ungs fólks í umræðu dagsins. Höfundur bókaflokksins er spænski rithöfundurinn og listamaðurinn Maria Isabel Sánchez Vegara.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert