Óvissustigi lýst yfir vegna ofanflóðahættu

Krapaflóð féll á Patreksfirði þann 26. janúar síðastliðinn.
Krapaflóð féll á Patreksfirði þann 26. janúar síðastliðinn. Ljósmynd/Guðlaugur Albertsson

Veðurstofan hefur lýst yfir óvissustigi á sunnanverðum Vestfjörðum vegna ofanflóðahættu, en óvissustigið tók gildi klukkan 4 í nótt, að segir í tilkynningu frá almannavörnum.

Veðurspár gera ráð fyrir ákafri úrkomu á svæðinu, sem hófst sem snjókoma upp úr miðnætti en en hefur nú breyst yfir í rigningu Úrkomumagnið í spánni er svipað því sem var 26. janúar síðastliðinn þegar krapaflóð féllu ofan Patreksfjarðar, Bíldudals og í Arnarfirði. Í sama veðri féll vott snjóflóð á Raknadalshlíð í Patreksfirði.

Vegfarendur og ferðafólk er hvatt til að sýna aðgæslu á stöðum þar sem grjót getur fallið og nærri vatnsfarvegum í brattlendi þar sem krapaspýjur geta borist niður. Íbúar í húsum nærri farvegum með sögu um krapaflóð eru hvattir til þess að sýna aðgæslu og ekki dvelja að óþörfu nálægt farvegunum.

Þá hafa íbúar í húsunum næst Geirseyrargili (Stekkagili) á Patreksfirði verið beðnir um að sýna aðgæslu og dvelja ekki í kjallaraherberjum með gluggum sem vísa upp í hlíðina á meðan mesta rigningin gengur yfir. Ekki þykir þó ástæða til að rýma húsin að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert