Vinnumarkaðslíkanið einn helsti veikleikinn

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Hákon

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra vekur athygli á því í stöðuuppfærslu á Facebook að dregið hafi úr framleiðni á Íslandi á sama tíma og laun hækki hratt.

Segist hann enn vera þeirrar skoðunar að vinnumarkaðslíkanið á Íslandi sé einn helsti einstaki veikleikinn í íslenskum efnahagsmálum. Þessu greinir hann frá í færslu á Facebook, eftir að hafa rifjað upp stefnuræðu sína frá haustinu 2017.

„Framvinda í verðlags- og vaxtamálum á Íslandi mun hér eftir sem hingað til fyrst og fremst ráðast af framvindunni á vinnumarkaði, launaþróuninni næstu árin,“ skrifar Bjarni.

Leitin að sökudólgnum muni litlu skila

„Þegar þetta er skrifað er staðan sú að sama dag og Seðlabankinn hækkar vexti um 0,5% með vísan í launahækkanir umfram forsendur verðstöðugleika standa yfir verkföll. Verkfallsaðgerðirnar eru til þess hugsaðar að knýja á um enn frekari launahækkanir.“

Rifjaði hann upp fyrrgreinda stefnuræðu þar sem hann sagði að sífellt væri leitað að sökudólgi, þegar farið sé út af sporinu í kjaraviðræðum á Íslandi sem þyki ekki samræmast stöðugleika.

„Leitin að sökudólgnum mun litlu skila fyrir landsmenn eins og reynslan sýnir. Árið 2023 væri betur nýtt til að leggja grunn að sátt um að þeir kjarasamningar sem fram undan eru, og þeir sem taka við af þeim skammtímasamningum sem stór hluti vinnumarkaðar hefur nú þegar gert, leggi grunn að nýju skeiði stöðugleika.

Ríkisstjórnin mun áfram vinna að því að stöðva hallarekstur og skuldasöfnun. Við höfum ágæta stöðu til að vinna úr, hér er hagvöxtur, atvinnuleysi lítið, staða heimila sterk og tækifæri víða til sóknar næstu árin. Það er í okkar höndum að spila vel úr þeirri stöðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert