Mörg ný andlit á landsfundi VG þrátt fyrir úrsagnir

Björg Eva Erlendsdóttir er framkvæmdastjóri Vinstri Grænna.
Björg Eva Erlendsdóttir er framkvæmdastjóri Vinstri Grænna.

Landsfundur Vinstri Grænna var haldinn um helgina á Akureyri. Viðstaddir voru 200 flokksmenn. Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri flokksins segir fjölda nýrra andlita á fundinum hafa komið ánægjulega á óvart í ljósi nýlegra úrsagna og orðræðu um fylgismissi.

Mikið fór fram á fundinum en að sögn Bjargar Evu var almennt góður andi yfir fundinum.

Hún segir fleiri hafa sótt landsfundinn en búist var við, en fundurinn er sá fyrsti síðan 2019 þar sem fundarhöld eru með öllu staðbundin, eftir heimsfaraldurinn.

Hún segir flokksmenn hafa skemmt sér konunglega á landsfundargleði og að kvenfrelsisflokkurinn hafi tekið lagið „hraustir menn“ 25 sinnum, við skemmtanastjórn Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra.  

Nýr gjaldkeri kjörinn

Björg segir samstöðu og góðan anda hafa verið ríkjandi á fundinum og viðveru fundarmanna góða.

„Fólk var ekki út um hvippinn og hvappinn eins og það er oft í Reykjavík, það verður svona betra utanumhald út á landi.“

Spurð hvort ólga væri innan flokksins segist hún ekki geta sagst hafa fundið fyrir því þrátt fyrir að vissulega hafi verið tekist á um bæði stefnumál og stjórnarstöður. 

Steinn Harðarson, 79 ára flokksmaður, var til að mynda kjörinn gjaldkeri með 54,7% atkvæða, en hann hafði betur gegn Líf Magneudóttur þrátt fyrir að hafa ekki sótt fundinn sjálfur.

Minna tekist á um útlendingamálin en vanalega 

Spurð hvaða mál hafi verið tekist um á fundinum kveðst Björg Eva hafa verið mikið á hlaupum, þar sem hún stóð að skipulagningu fundarins og því ekki geta tjáð sig um þau mál sem fóru fram á fundinum.

Hún segist þó geta sagt að tekist hafi verið á um strandveiðar, en að það sé alltaf deilumál innan flokksins. Hún segir einnig útlendingamál hafa verið tekin fyrir en þó minna en áður.

„Það var tekist á um útlendingamál, það er oft gert. En það var minna heldur en áður því þeir sem voru mest í því voru farnir.“

Um 30 manns sögðu sig úr Vinstri Grænum í kjölfar samþykktar ríkisstjórnar á hinu umdeilda útlendingafrumvarpi á miðvikudaginn síðast liðinn, en margir telja það brjóta gegn mannréttindum fólks og barna á flótta.

Bjóst ekki við svo mörgum nýjum

Hún segir það hafa komið sér ánægjulega á óvart hversu mikið af nýjum flokksmönnum hefðu mætt og boðið sig fram í flokksráð og stjórn. 

„Það var ekkert endilega búist við því eins og umtalið um VG hefur verið síðustu vikur og mánuði um að fylgið sé farið.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert