Allir bílar við háskólann fengu sekt

Miðar í stíl sektar frá bílastæðasjóði fundust á bílgluggum á …
Miðar í stíl sektar frá bílastæðasjóði fundust á bílgluggum á bílastæðum við Háskóla Íslands.Um er að ræða gjörning á vegum hagsmunafélagsins Vöku. Ljósmynd/Aðsend

Það ergir eflaust marga að sjá sektarmiða á bílrúðunni en slíkir miðar blöstu við á bílum við bílastæði Háskóla Íslands í morgun. Um er að ræða gjörning á vegum Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta í Háskóla Íslands, en kosningar til stúdentaráðs eru í vikunni.

Gjörningurinn er til þess að vekja athygli á og mótmæla fyrirhugaðri gjaldskyldu á bílastæðum háskólans en á síðasta rúma mánuði hefur viðfangsefnið verið mikið í umræðunni þar.

Vaka hefur gagnrýnt Röskvu, annað hagsmunafélag stúdenta, fyrir að berjast ekki nógu harkalega gegn gjaldskyldum bílastæðum við háskólann. Plaköt með slagorðunum „Röskva rukkar þig“ voru afar áberandi í á háskólasvæðinu í seinasta mánuði en þá hafði tillaga sem snerist um að stúdentaráð skyldi fordæma gjaldskylduna verið felld niður af Röskvuliðum.

Viktor Pétur Finnsson, forseti Vöku, segir að bæði félögin hafi mikið rætt bílastæðamálin en að Vöku þykir þau ekki hafa sett sig nógu hart upp að gjaldskyldunni.

„Á Hanaslagnum núna á föstudaginn,“ segir hann í samtali við mbl.is, og skýtur því inn að Hanaslagur séu pallborðsumræður haldnar fyrir kosningarnar, „voru þau [Röskva] spurð hvort þau væru með á móti og þau voru játandi að þau séu fylgjandi gjaldskyldu, með vissum trega þó,“ segir Viktor Pétur.

Viktor Pétur Finsson, forseti Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta.
Viktor Pétur Finsson, forseti Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta. Ljósmynd/Aðsend

„Uppskerum eins og við sáum“

„Við erum mjög brött og þetta gengur mjög vel,“ segir Viktor spurður um hvernig framboðsvinnan hafi gengið á seinustu dögum. „Ég er mjög bjartsýnn að eðlisfari. Ég trúi bara að ef við leggjum okkur fram munum við uppskera eins og við sáum.“

Hann kveðst finna fyrir miklum meðbyr meðal nemenda. „Það eru margir sem eru ósáttir með stöðu háskólans og margir sem átta sig á því að háskólinn á og gæti verið mun betri en hann er.“

Hann bætir við að eru ekki séu mörg ár síðan háskólinn hafi sett sér það markmið að vera á lista með eitt hundrað bestu háskólum heims. Hann sé þó langt fjarri því og sé nú á lista með 500 - 600 bestu háskólum heims

Betri skóli

Viktor segir að bæta megi kennslu í skólanum. Honum finnst að skólinn megi bæta sig í rafrænum kennsluháttum en rafræna kennslu telur hann mikilvæga fyrir nemendum sem búa á landsbyggðinni og einnig foreldra.

Hann segir að nútímavæða megi kennsluhætti háskólans og bjóða upp á upptökur af öllum kennslustundum svo hægt sé að horfa á fyrirlestra utan staðbundinna tíma, eins og til dæmis á kvöldin, sé maður að vinna á daginn.

Hann segir Vaka vilji koma á fót svokallaðri „Háskólaleið“ en hún myndi sjá um að ferja nemendur á milli bygginga háskólans.

Vaka hefur á seinustu vikum vakið athygli á verðum í Hámu, matvöruverslun stúdenta. Auk þess hafa þau bent á að það sé ýmislegt sem Háskólinn í Reykjavík bjóði stúdentum upp á en ekki Háskóli Íslands, t.a.m. tíðari upptöku á fyrirlestrum, starfsnám sem metið er til eininga og sálfræðiþjónustu fyrir nemendur í meira mæli.

Nemendafélög farin að taka afstöðu

Um helgina héldu bæði Röskva og Vaka svokölluð kosningapartý í miðbæ Reykjavíkur. Röskva hafði sín hátíðarhöld á Kex Hostel en Vaka hafði sín á Bankastræti Club.

Viktor segist hafa séð á samfélagsmiðlum að nemendafélög einstakra sviða innan háskólans hefðu verið að spyrja nemendur hvort nemendafélagið sjálft ætti að kaupa drykkjarvörur til þess að bjóða upp á viðburði Röskvu.

Hann segir að þá sé allt í einu verið að nota fjármagn frá nemendafélögum og frá nemendum sjálfum til þess að styrkja aðra hvora fylkinguna.

„Auðvitað er ekkert ólöglegt við þetta og í raun og veru samkvæmt öllum samþykktum má gera þetta,“ segir hann. „Mér finnst það skjóta skökku við að fjármagna sig með nemendafélögum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert