Hætta með ungmennabúðir vegna myglu

Ungmennabúðir UMFÍ á Laugarvatni.
Ungmennabúðir UMFÍ á Laugarvatni. Ljósmynd/UMFÍ

Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) hefur ákveðið að hætta starfsemi ungmennabúða félagsins á Laugarvatni sem hafa verið starfræktar í um tvo áratugi. Áður hafði búðunum verið lokað tímabundið um miðjan febrúar vegna myglu og rakaskemmda.

Sveitarfélagið Bláskógabyggð, sem er eigandi húsnæðisins, hefur upplýst UMFÍ að sveitarfélagið ætli ekki í nauðsynlegar framkvæmdir svo hægt sé að halda starfseminni áfram og var niðurstaða UMFÍ þá að hætta starfseminni.

Í tilkynningu frá UMFÍ kemur fram að sveitarfélagið hafi opnað á þann möguleika að UMFÍ myndi kaupa húsnæði ungmennabúðanna af sveitarfélaginu og halda starfseminni áfram. „Stjórn og stjórnendur UMFÍ hafa skoðað og metið framkvæmda- og kostnaðaráætlanir í tengslum við það til framtíðar. Það er hins vegar mat stjórnenda og stjórnar UMFÍ að áætlaður kostnaður við kaup og nauðsynlegar framkvæmdir á húsnæðinu sé af þeirri stærðargráðu að ekki er skynsamlegt fyrir UMFÍ að takast eitt á hendur slíka skuldbindingu,“ segir í tilkynningunni.

Þar kemur jafnframt fram að stjórninni þyki þetta afar miður, en að hún hafi verið tilneydd til að ljúka starfseminni.

UMFÍ hefur frá árinu 2005 starfrækt ungmennabúðir og frá árinu 2019 á Laugarvatni. Í búðirnar hafa á hverju ári komið næstum því þrjú þúsund nemendur úr 9. bekk grunnskóla af öllu landinu með kennurum og umsjónarfólki og dvalið þar í fimm daga í senn.

UMFÍ rekur jafnframt Skólabúðir á Reykjum í Hrútafirði og koma þangað nemendur 7. bekkjar úr grunnskólum af öllu landinu. Þessi ákvörðun hefur engin áhrif á skólabúðirnar á Reykjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert