„Eins og kveikt væri í púðri“

Tvö hús, gamalt útihús og hlaða urðu eldinum að bráð.
Tvö hús, gamalt útihús og hlaða urðu eldinum að bráð. mbl.is/Arnþór

Tvö hús sluppu naumlega í sinubrunanum í Hafnarfirði í dag. Annars vegar Óttarsstaðir-Vestri og Eyðikot. 

„Það brann eitt fjárhús og hlaða,“ segir Birgir Sörensen eigandi Óttarsstaða-Vestri sem stendur á jörðinni Straumi þar sem umfangsmikill sinubruni geisar.

„Þegar þetta byrjaði var bara eins og kveikt væri í púðri og allt fauk af stað,“ segir Birgir og bætir því við að eldurinn hafi farið yfir á gönguhraða.    

Birgir Sörensen.
Birgir Sörensen.

Öll hús muni sleppa 

Hann segir að útlit sé fyrir að öll hús komi til með að sleppa hér eftir. 

„Það brann alveg upp að þilinu á húsinu mínu en það má segja að það hafi verið í raun til happs hversu hratt bruninn gekk yfir, því eldurinn náði ekki að læsa sig í timbrinu,“ segir Birgir.

Hann segir að húsin sem brunnu séu um 100 ára og annað þeirra gerði hann upp fyrir um tíu árum. „Gamli bærinn er okkar sumarhús og við höfum slegið í kringum hann,“ segir Birgir og telur hann sláttinn hafa bjargað bænum. Sinan sé þar með minnsta móti. 

Slökkvistarf fer fram á stóru svæði.
Slökkvistarf fer fram á stóru svæði. mbl.is/Arnþór

Á Tenerife með fréttamiðla opna 

Ægir Kjartansson er eigandi Eyðikots sem er nýlegt sumarhús á svæðinu. Var hann staddur á Tenerife þegar mbl.is náði tali af honum. „Maður er með alla fréttamiðla opna og veit ekki neitt,“ segir Ægir. 

Minnstu mátti muna að illa færi við sumarhúsið Eyðikot.
Minnstu mátti muna að illa færi við sumarhúsið Eyðikot.

Segist hann hafa fengið frásögn af því að hurð hafi skollið nærri hælum. „Það er allt orði svart alls staðar í kringum húsið. En húsið virðist hafa sloppið alveg,“ segir Ægir. 

Birgir tekur undir að minnstu hefði mátt muna að illa færi. „Eldurinn var kominn alveg upp að húsinu þegar slökkviliðið kom á svæðið. Þeir björguðu því líklega,“ segir Birgir.  

Hann segir að öll tún séu ónýt. „Þetta fauk bara yfir allt. Hraðinn var ótrúlega mikill. Ennþá er óbrunnin sina við bæinn hjá okkur og maður verður bara hérna að fylgjast með. Einn neisti gæti sett allt af stað.“

Óttarsstaðir-Vestri.
Óttarsstaðir-Vestri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert