„Alvöru vetrarveður áfram á landinu“

Talsverð snjókoma hefur verið á Suðurlandi í dag og hreyfist …
Talsverð snjókoma hefur verið á Suðurlandi í dag og hreyfist lægðin nú til austurs. mbl.is/Jón Pétur

Talsverðri snjókomu er spáð á Suðausturlandi í dag þar sem færð getur orðið erfið og skyggni lítið. Lægðin hefur færst austur í Mýrdal og er sums staðar snjóþekja á vegum. Allir vegir eru þó enn opnir.

Í kvöld versnar mjög á Austfjörðum þar sem mun snjóa mikið í nótt og vel fram yfir hádegi á morgun. Veðurfræðingur bendir á að þar geti færð orðið erfið í fyrramálið.

„Á morgun fer jafnframt að hvessa dálítið á Austfjörðum og verður sums staðar mjög kviðótt,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

„Það verða einhver vandræði með færðina þannig það þarf að fylgjast vel með því. Snjóflóðasérfræðingar okkar eru líka á tánum og fylgjast mjög vel með.“

Frá Úthlíð á Suðurlandi í dag.
Frá Úthlíð á Suðurlandi í dag. mbl.is/Jón Pétur

Hlýnar í veðri þegar líður á vikuna

Segir Þorsteinn að mesti snjórinn verði líklega í Öræfum þegar dagurinn sé á enda kominn. Þá byrji að snjóa hressilega á Austfjörðum seint í kvöld.

„Það er bara alvöru vetrarveður áfram á landinu, þó við séum að spá heldur hlýnandi veðri þegar líður á vikuna, austlægari vindar og hitinn fer upp á við frá og með miðvikudeginum. Þá fara rauðu tölurnar að sjást aftur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert