Tími til að verjast frekar en að sækja fram

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti fjármálaáætlun 2024-2028 fyrr í dag.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti fjármálaáætlun 2024-2028 fyrr í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Samkvæmt nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2024 til 2028 er gert ráð fyrir að ríkissjóður komist jákvæðu megin við núllið árið 2027 og að þá verði 300 milljóna afgangur sem muni aukast árið 2028. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir áætlunina, sem kynnt var fyrr í dag, draga fram bata sem hafi orðið í opinberum fjármálum. „Við erum komin langt fram úr áætlunum okkar um að stöðva hækkun skulda og halda skuldahlutföllum lágum. Afkoman hjá ríkinu er að batna um 200 milljarða á tveimur árum og frumjöfnuður að jafnast mjög ört og við erum komin í plús. Það er margt mjög jákvætt að gerast,“ sagði Bjarni í samtali við mbl.is eftir kynningarfundinn.

Seðlabankinn hefur hækkað vexti undanfarið í tengslum við verðbólgu sem fór yfir 10%, en mældist í mars 9,8%. Standa stýrivextir bankans nú í 7,5% og segist Seðlabankastjóri tilbúinn að hækka þá meira sé þörf á, en hann kastaði boltanum meðal annars til ríkisstjórnarinnar á síðasta vaxtaákvörðunarfundi og sagði þá að „öll hjálp sem við fáum frá fjár­lög­um rík­is­ins er vel þegin, en við erum ekki að bíða eft­ir því.“

„Áætlun sem er mjög trúverðug fyrir batnandi lífskjör“

Spurður hvort ríkisstjórnin sé nú að mæta þessum kröfum um aðhald í ríkisrekstri segist Bjarni trúa því samhliða að standa við það sem ríkið hafði áður gefið út um að standa vörð um þá sem standi veikir gagnvart verðbólgunni. Þá segir hann ríkið einnig áfram vera að fjárfesta til framtíðar í gegnum starfsnám, háskólanám, rannsóknir og þróun og uppbyggingu innviða.

Á fundinum sagði Bjarni að nú væri tími til þess að verja kaupmátt frekar en að sækja fram og í samtali við mbl.is segir hann að í því felist meðal annars að ýta áfram ýmsum fjárfestingarverkefnum ríkisins og fara í aðhalds- og sparnaðaraðgerðir. „Við erum með áætlun sem er mjög trúverðug fyrir batnandi lífskjör og til skamms tíma til að fást við verðbólguna,“ segir Bjarni.

„Þetta verður að breytast“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur sagt að ná þurfi verulegum árangri í baráttunni gegn verðbólgunni áður en ný lota kjarasamninga hefjist í haust. Bjarni segist ekkert geta gefið upp um hvaða tölur hann teldi eðlilegt að sjá verðbólguna í á þeim tímapunkti eða hversu mikið hann vilji sjá hana lækka á árinu. „En við erum að meina það sem við segjum um að beita okkur gegn verðbólgu með markvissum aðgerðum.“

Bjarna var tíðrætt um að verðbólga hér á landi væri ekki hærri en í flestum Evrópuríkjum, en hins vegar væru verðbólguhorfur hér nokkuð verri. Við því þyrfti að bregðast og sagði hann fjármálaáætlunina vera lið í því. „Þar [í löndum Evrópusambandsins] eru væntingar um að verðbólgan komi tiltölulega hratt aftur niður, en á Íslandi virðis trúin vera að verðbólgan verði viðvarandi lengur. Þetta verður að breytast.“

Aðgerðirnar sem fara á í á þessu ári

Fjármálaáætlun 2024-2028 nær, líkt og nafnið gefur til kynna, ekki til þessa árs, heldur hefst hún á næsta ári. Spurður til hvaða aðgerða ríkisstjórnin sé að grípa á þessu ári til að slá á þenslu og verðbólgu segir Bjarni það vera nokkra hluti. Fyrst nefnir hann að um mitt ár verði endurgreiðsla vegna bygginga íbúða, endurbóta og viðhalds færð niður í 35% úr 60%. „Það er umtalsverð breyting með skömmum fyrirvara,“ segir Bjarni.

Hann tekur þó fram að ríkisstjórnin muni vel fylgjast með áhrifum af þessar breytingu og mögulega verði gripið í ef kælingaráhrifin verði of mikil.

Þá segir Bjarni að á þessu ári verði farið af fullum krafti í hagræðingar- og umbótaverkefni, en hann nefndi meðal annars að samkvæmt sviðsmynd sem unnið væri með ætti að vera hægt að fækka ríkisstofnunum úr 147 niður í 90. Slíkt myndi spara talsvert í yfirbyggingu og stjórnunarkostnaði. Þá er í vinnslu verkefni um að nýta vinnurými ríkisins mun betur og á glæru sem Bjarni sýndi var tekið sem dæmi að hægt væri að fækka fermetrum um 40% sem nú væri notaður. Sagði hann sparnað vegna slíkra aðgerða geta verið um 2 milljarða árlega.

Afgangur áætlaður árið 2027

Frumjöfnuður ríkissjóðs er þegar orðinn jákvæður og sagði Bjarni það mjög mikla breytingu frá fyrri fjármálaáætlunum. Þannig væri niðurstaðan núna um 200 milljörðum betri en áætlað var fyrir tveimur árum.

Miðað við fjármálaáætlunina núna er gert ráð fyrir að halli verði á heildarafkomu ríkissjóðs á næsta ári upp á 51,1 milljarð. Árið eftir verði hallinn 39,5 milljarðar og árið 2026 verði hann 16,6 milljarðar. Samtals er það halli upp á rúmlega 107 milljarða. Árið 2027 er hins vegar gert ráð fyrir að heildarafkoman verði orðin jákvæð og skili 300 milljóna afgangi og svo 5,9 milljarða afgangi árið 2028.

Milljarðarnir á tekjuhliðinni

Bjarni segir að 2% aðhaldskrafa verði gerð á öll ráðuneytin, en undanskilin verða heilbrigðiskerfið, almannatryggingakerfið og löggæsla. Segir hann hvers ráðuneytis að útfæra hvernig þessari aðhaldskröfu verði náð en á móti hafi ráðherrar fengið fjármuni til ákveðinna áhersluverkefna. „Þeir þurfa að forgangsraða fjármunum,“ segir Bjarni.

Á tekjuhliðinni verður tekjuskattur á lögaðila hækkaður um 1 prósentustig og segir Bjarni að samkvæmt forsendum áætlunarinnar eigi það að skila 6 milljarða tekjuauka á næsta ári, en um tímabundna aðgerð er að ræða til eins árs. Þá segir hann aukin gjöld á land- og sjókvíaeldi eiga að skila um 1 milljarði árlega. Áætlað er að ný gjöld á skemmtiferðaskip skili um 700-800 milljónum og að aukin veiðigjöld muni skila tekjuauka upp á 2 milljarða fyrsta árið og svo hækka í skrefum upp í 3 milljarða og svo 4 milljarða árlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert