Hættir til þess að ein­beita sér að tón­listinni

Friðrik Jónsson, formaður BHM.
Friðrik Jónsson, formaður BHM. Ljósmynd/BHM

Friðrik Jónsson, formaður Bandalags háskólamanna (BHM) hyggst ekki gefa kost á sér til endurkjörs þegar tveggja ára kjörtímabili hans lýkur. Hann segist hafa lagt upp með því að gegna embættinu í aðeins tvö ár og hyggst standa við stóru orðin.

Kjörtímabili Friðriks líkur eftir átta vikur en aðalfundur bandalagsins verður haldinn þann 25. maí næstkomandi.

„Það hefur alltaf legið fyrir að ég væri bara að koma inn í eitt kjörtímabil. Að vinna að því að bæta, hressa, kæta bandalagið og vinna að þessu að samningur tæki við af samningi. Eins og ég sagði, þá ef mér tækist það sem ég stefndi að því að reyna að gera á þessum tveimur árum, þá væri mínu verkefni lokið og ágætt að einhver annar tæki við. Nú ef mér tækist það ekki þá væri ég ekki maðurinn til verksins og þá er eins gott að einhver annar taki við,“ segir Friðrik í samtali við mbl.is.

Starfið stærra en einstaklingurinn

Hann sé sáttur við það sem honum hafi tekist að gera á síðustu tveimur árum með félögum sínum innan bandalagsins

Spurður hvort að það blundi ekki í honum löngun til þess að halda starfinu áfram segist Friðrik hafa hugleitt það þegar hann hafi verið hvattur til þess en haldi sig við upphaflega ákvörðun sína.

„Það er voða gaman að einhverjum hefði fundist ágætt að ég héldi áfram en svona starf er alltaf stærra en einstaklingurinn sem sinnir því á hverjum tíma,“ segir Friðrik.

Best að taka sjálfan sig ekki of hátíðlega

Hann hvetur arftaka sinn í starfi til þess að muna að starfið snúist um meðlimi aðildarfélaganna, þar eigi fókusinn að liggja, í því að bæta kjör, velja réttindi og tryggja kaupmáttinn meðal annars.

„Og aldrei að taka sjálfan sig of hátíðlega en það á ekki bara við um þetta starf. Það er ágætis lífsregla bara. Ég segi bara, ég er að hætta í þessu til að einbeita mér að tónlistinni,“ segir Friðrik og hlær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert