Rauntímabirgðastaðan væntanleg

„Nákvæmar upplýsingar um birgðastöðu eins og hér um ræðir er …
„Nákvæmar upplýsingar um birgðastöðu eins og hér um ræðir er ómetanlegur og getur komið í veg fyrir skort á mikilvægum lyfjum og lækningatækjum.“ Ljósmynd/Colourbox

Upplýsingakerfi sem sýnir rauntímabirgðastöðu lyfja og lækningatækja hjá öllum aðilum sem halda utan um slíkt, verður komið á fót, samkvæmt frumvarpi Willum Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra sem lagt var fram í dag.

Felur frumvarpið í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins frá 25. janúar 2022 um að styrkja hlutverk Lyfjastofnunar Evrópu vegna viðbúnaðar við krísu og krísustjórnun.

Þá er frumvarpið einnig fyrsta viðbragð heilbrigðisráðherra  við skýrslu starfshóps forsætisráðuneytisins um neyðarbirgðir sem kom út í ágúst 2022.

Þetta segir í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.

Meiri upplýsingar til almennings

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lyfjalögum og lögum um lækningatæki. Frumvarpið felur í sér ákvæði sem leggja skyldur á herðar aðilum um að veita Lyfjastofnun upplýsingar um birgðastöðu lyfja og lækninga­tækja í raun­tíma,“ segir í tilkynningunni.

Auk þess er lagt til að Lyfjastofnun hafi heimild til að miðla upplýsingum áfram til Lyfjastofnunar Evrópu og áfram til ríkisstofnana, heilbrigðisstarfsmanna og almennings.

Samfélagslegur ávinningur af því að hafa á hverjum tíma nákvæmar upplýsingar um birgðastöðu eins og hér um ræðir er ómetanlegur og getur komið í veg fyrir skort á mikilvægum lyfjum og lækningatækjum sem tryggir öryggi sjúklinga og heilbrigðiskerfisins.

Frumvarpið og stöðu málsins á þinginu má finna á vef Alþingis hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert