Heimsmet í heimsku að hækka bankaskatt

Það væri „heimsmet í heimsku“ að hækka bankaskattinn, sem leggst á skuldir fjármálafyrirtækja, ef ætlunin á að vera að bæta lánakjör heimilanna. Afleiðingin yrði augljóslega sú að bankarnir væru nauðbeygðir til þess að auka hjá sér vaxtamuninn.

Þetta segir Hörður Ægisson, ritstjóri Innherja, en hann og Gísli Freyr Valdórsson, fréttastjóri ViðskiptaMoggans, eru í viðtali Dagmála, streymis Morgunblaðsins sem opið er öllum áskrifendum. Þar er efnahagsástandið til umræðu, verðbólga og vextir, en einnig nýframkomin fjármálaáætlun ríkisins.

„Þær hugmyndir, sem maður hefur séð í aðdraganda fjármálaætlunar hjá t.a.m. Vinstrigrænum og Framsóknarflokknum sérstaklega, hafa allar lotið að því hvernig bæta megi tekjuöflunina, segir Hörður.

Hann minnir á að Bjarkey Olsen, formaður fjárlaganefndar, hafi nýverið talað fyrir hærri bankaskatti, hærri sköttum á útgerðina og hækkun á fjármagnstekjuskatti. Slíkar skattahækkanir myndu ekki slá á þensluna og lítið annað en lýðskrum.

Gísli Freyr er sama sinnis og segir ekki hjá því komist að minnka útgjöld hins opinbera, en það sé erfitt að sannfæra stjórnmálamenn um að þeir eigi að fá minna fé til þess að spila úr í ráðuneytunum. Inn því spili misjöfn viðhorf stjórnarflokkanna til ríkisumsvifa og skattheimtu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert