Bakkaði þyrlu tvo kíló­metra til Nes­kaup­staðar

Vegna veðurs þurfti að bakka þyru Landhelgisgæslunnar síðustu tvo kílómetrana til Neskaupstaðar á dögunum. Flugstjórinn segir ekki gripið til þess oft en það sé stundum nauðsynlegt í slæmu skyggni og óhagstæðum vindum til þess að hafa neyðarleið út. Þá var mikið undir en flytja þurfti lækni og lögregluþjóna á staðinn ásamt því að sækja þungaða konu sem hafði þegar hafið fæðingu.

„Það voru náttúrlega frekar léleg flugskilyrði í Neskaupstað á þessum tímapunkti og dagana á undan. Við ætluðum okkur að vera inni á Neskaupstað mikið fyrr en það var algjörlega ófært, við vorum búin að reyna einu sinni að komast þarna inn. Sökum snjókomu og vinds þá þurftum við frá að hverfa og fórum aftur inn á Egilsstaði og ákváðum að sæta lagi að komast inn milli élja frá Egilsstöðum. Seinna um daginn töldum við skilyrðin vera orðin ásættanleg til þess að reyna aftur og vorum þarna með sjúkling í huga ásamt því að reyna að koma lögreglunni inn til Neskaupstaðar til þess að létta á álagi og einnig lækni, þannig það var svolítil pressa á okkur,“ segir Björn Brekkan Björnsson, flugstjóri hjá Landhelgisgæslunni.

Gert til þess að geta forðað sér úr aðstæðum 

Þegar tekið var aftur á stað fór Björn með þyrluna upp yfir fjallgarðinn, skýin og veðrið og lækkaði flugið út á sjóinn til þess að gera tilraun til þess að komast í sýn við fjöll og sjó og hafa eitthvað til að fljúga eftir. Við tók slæmt veður í Norðfirði og reyndi hann að komast með þyrluna lágt og nærri fjöllunum til þess að sjá aðstæður betur en þá kom vindurinn í bakið á vélinni.

„Þá þurfum við að halda uppi ákveðnum hraða inn fjörðinn og það er rosalega erfitt þegar skyggnið er svona slæmt því að þá hef ég ekki svigrúm til þess að snúa við út fjörðinn eða klifra upp yfir fjöllin ef ég missi sýn á annað hvort sjó eða strönd. Þá er hraðinn á vélinni orðinn of mikill til þess að ég nái að forða mér út úr aðstæðunum. Eina leiðin til þess að komast inn þegar skyggnið er svona slæmt er að snúa nefinu á vélinni upp í vindinn og þegar við fylgjum ströndinni inn Norðfjörðinn þá sé ég að skyggnið er að detta niður og þá var ekkert annað en að taka mjög krappa beygju upp í vindinn og enda í hangflugi við ströndina. Svo í rauninni er ekkert annað að gera en að bakka með ströndinni þessa líklega tvö kílómetra sem ég átti eftir í lendingarstaðinn í snjókomunni, þá alltaf með sjón á ströndinni. Þannig ef að ég hefði misst sýn eða hætt að sjá ströndina hefði ég getað forðað mér út úr aðstæðunum með því að klifra út fjörðinn án þess að fljúga á fjöllin,“ segir Björn.

Hann hafi þurft að fljúga mjög hægt til þess að halda stjórn á vél sem var mjög þung vegna eldsneytis og farþega. Það hafi einnig skipt máli að gera þetta rólega til þess að ná að lenda á lendingarstað sem var á kafi í snjó.

Ekki hægt nema með mjög reynslumiklu fólki 

Björn segir það ekki gerast oft að aðstæður krefjist þess að vél sé bakkað á áfangastað en það komi þó fyrir í krefjandi aðstæðum. Í lélegu skyggni og mikilli úrkomu sé beinlínis hættulegt að fljúga með vindinn í rassinn, þá þurfi vélin að vera á svo miklum áframhraða til þess að hægt sé að halda stjórn.

„Ef við missum stjórn á vélinni í svoleiðis aðstæðum þá komum við henni ekki út, þá bara flýgur maður á fjall eða nær ekki beygjunni eða eitthvað svoleiðis vesen. Þess vegna verður maður að snúa vélinni þannig að ef að það kemur eitthvað upp þá getur maður flogið beint út,“ segir Björn og játar því að vissulega hafi verið mikið undir í þessum aðgerðum.

„Við vorum búin að bíða eftir að komast þarna inn allan daginn, sjá veðurglugga. Þetta var í rauninni bara eini glugginn sem við höfðum en svo var veðrið verra þegar við komum á staðinn en við reiknuðum með. Við ákváðum bara að reyna og það hafðist svona. Það var bara spurning um að gera þetta svona, hægt og rólega þrjóskast við og taka tíma í þetta og vinna þetta skref fyrir skref. Þetta er ekkert hægt nema með mjög reynslumiklu fólki og góðum tækjum,“ segir Björn að lokum.

Myndbandið að ofan er tekið af Kristínu Hávarðsdóttir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert