Börn eiga rétt á aðstoð meðan beðið er greiningar

Börn á einhverfurófi þurfa að bíða minnst 30 mánuði eftir …
Börn á einhverfurófi þurfa að bíða minnst 30 mánuði eftir greiningu. Myndin tengist ekki fréttinni beint. Styrmir Kári

Biðtími eftir einhverfugreiningu virðist lengjast með hverjum deginum, en biðtími eftir fullnaðargreiningu er nú í það minnsta 30 mánuðir, að sögn Önnu Sigríðar Pálsdóttur, yfirlæknis á Geðheilsumiðstöð barna. Það sé hins vegar ekki vegna hægagangs hjá miðstöðinni.

„Það er ekki verið að hægja á hjá okkur, við erum frekar að spýta í lófana og reyna að vinna hraðar, en það er bara meiri aðsókn í greiningar.“ 

Aðspurð hvernig standi á biðinni segir Anna Sigríður veldisvöxt á tilvísunum í greiningarferli, valda biðinni.

„Segjum sem svo að við höfum fengið 700 tilvísanir fyrir tveimur árum síðan, fyrir allt árið. Við erum komin upp í 300 í ár og það er bara mars,“ segir Anna Sigríður.

Foreldrar tilkynna sig til barnaverndarnefnda

Greiningarteymin eru tvö, en annað sér um greiningar yngri barna og hitt eldri barna. Anna Sigríður segir teymin vinna að því að þjálfa upp fleira starfsfólk til að sinna greiningarvinnu. Forgangsbiðlisti er til staðar, en hann er fyrir sérstaklega erfið tilfelli, þar sem vart er hægt að hafa barn á heimili lengur.

Margir foreldrar, sem ekki ráða við börn sín lengur sökum erfiðleika tengdum frávikum í taugakerfisþroska, hafa fundið sig knúin til að tilkynna sig sjálfa til barnaverndarnefnda, í von um að fá aðstoð.

„Þetta er stundum bara eina leiðin, að tilkynna sig til barnaverndarnefndar“ segir Anna Sigríður.

Hún minnir hins vegar á að samkvæmt nýjum lögum þurfi ekki lengur greiningu til að fá aðstoð fyrir börn í skóla og tilkynna þurfi ef skólar krefjist ennþá greiningar til að veita barni aðstoð. „Þetta er komið í lög og það er líka hægt að hafa samband við félagsþjónustu og málstjóra samþættingar sem geta þá ýtt á eftir hlutum“

Aukin skjátími og heimsfaraldur mögulegir þættir

Hún segir ekki vera einfalt svar við því hvað valdi fjölgun tilvísana enda séu margir þættir sem spili þar inn í og hvert og eitt mál einstakt. Aðspurð hvort mögulega séu of mörg börn send í greiningarferli, kveðst Anna Sigríður ekki geta svarað því. 

„Maður má ekki fara að alhæfa yfir heilan hóp, hvert mál er bara einstakt og það er enginn að leita sér aðstoðar nema að það sé vandi til staðar.“

Anna Sigríður nefnir meðal annars kórónuveirufaraldurinn og aukin skjátíma, sem mögulega áhrifaþætti þegar kemur að fjölgun tilvísana í einhverfugreiningar. „Börn sem þurfa virkjun og þurfa reglulega rútínu, detta úr reglu og rútínu. Þá koma fram vandamál sem hefðu kannski ekki annars komið fram.“ 

mbl

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert