Hættulegur leikur að bíða ef leitað er að ákveðnu eggi

Klassísku ríseggin og draumeggin eru ávalt vinsælust hjá Freyju.
Klassísku ríseggin og draumeggin eru ávalt vinsælust hjá Freyju. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fólk kaupir sér páskaegg fyrr en nokkru sinni áður og því varasamt fyrir þá sem eru sólgnir í ákveðin egg að bíða með kaupin of lengi. Pétur Thor Gunnarsson framkvæmdastjóri Freyju segir í samtali við mbl.is að páskaeggjasala gangi vel en erfitt sé að segja til um sölutölur fyrr en að páskahelginni lokinni.

Aðspurður hvort neytendur kaupi páskaegg fyrr en áður hefur tíðkast svarar hann játandi. „Fólk er að smakka páskaegg og fólk er að kaupa sér páskaegg bara einhverja helgi til að gera vel við sig fyrir páska“ segir Pétur. „Neyslan er auðvitað er 90 prósent ef ekki 95 prósent á páskadeginum. En salan er klárlega að eiga sér stað fyrr, líka bara í ljósi þess að það hefur verið þannig í gegnum tíðina að ákveðin páskaegg seljast upp,“.

Pétur Thor Gunnarsson framkvæmdastjóri Freyju.
Pétur Thor Gunnarsson framkvæmdastjóri Freyju. Ljósmynd/Aðsend

Vinsælustu eggin ávalt þau klassísku

Þeir sem séu sólgnir í tiltekin egg og hafi brennt sig á því að bíða of lengi með að kaupa þau, hafi því lært af reynslunni og séu oft fyrri til að versla þau. Langstærstur meirihluti kaupi þó enn eggin sín í dymbilvikunni.

„Það er samt hættulegur leikur ef þú ert að leita að einhverju ákveðnu eggi“ segir Pétur. Hann segir vinsælustu eggin ávalt vera þau klassísku sem hjá Freyju eru draumegg og rísegg, en að nýjustu eggin seljist alltaf vel og eigi það til að seljast upp. Í ár sé það bombueggið, sem hefur fengið mjög góðar móttökur að sögn Péturs.

„Feikinóg að byrja eftir þrettándann“

Að sögn Péturs hófst sala á eggjum á fæti um miðjan febrúar en litlu eggin, eða ásar eins og þau eru kölluð, voru komin í búðir fyrr enda séu þau eins konar desert egg sem fólk kaupi sér til að gera sér glaðan dag. Hann segir þó ekki vera áform um að hefja sölu á eggjunum frá Freyju mikið fyrr.

„Í ár komu egg á fæti í búðir fyrir jól. Það voru ekki okkar egg heldur frá samkeppnisaðila, en það hef ég aldrei séð áður.“ segir Pétur. „Ég sjálfur hef ekkert mikinn áhuga á að koma með eggin fyrir, ég held að það sé ekki vilji fyrir því. Ekki nema að það komi til þess að desert egg Freyju verði eins konar Kinder egg maður veit náttúrulega aldrei. En á meðan þau eru bara páskaegg finnst mér feikinóg að byrja eftir þrettándann“.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert