Laun ráðamanna hækka um 6% í júlí

Katrín Jakobsdóttir segir fyrirkomulag um breytingar á launum ráðamanna gott.
Katrín Jakobsdóttir segir fyrirkomulag um breytingar á launum ráðamanna gott. mbl.is/Kristinn Magnússon

Laun æðstu ráðamanna þjóðarinnar munu hækka um sex prósent í upphafi júlímánaðar. Forsætisráðherra segir ekki standa til að koma í veg fyrir hækkun launa ráðamanna þrátt fyrir að verðbólga sé mikil. 

Ríkisútvarpið greindi frá þessu í kvöldfréttum sínum í kvöld og ræddi við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. 

Laun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna, ráðuneytisstjóra, dómara, saksóknara, lögreglustjóra, ríkissáttasemjara og seðlabankastjóra munu að óbreyttu hækka. Launahækkunin er bundin í lög og segir forsætisráðherra fyrirkomulagið það besta sem fundið hafi verið á þessum málum. 

Spurð hvort forsætisráðherra fyndist í lagi að embættismenn fái launahækkun þegar það er mikil verðbólga sagði Katrín: „Það fyrirkomulag sem er á launum æðstu embættismanna er fyrirkomulag sem tók við með lögum sem við settum 2019 í kjölfar þess að við lögðum niður kjararáð. Bara til upprifjunar þá var það fyrirkomulag mjög umdeilt á sínum tíma.“

6 til 6,3% hækkun

Laun ráðamanna taka breytingum 1. júlí á hverju ári og reiknar Hagstofa Íslands út hver breytingin skuli verða og gefur út fyrir 1. júní. Í svari Katrínar í fréttum Ríkisútvarpsins í kvöld sagði hún að samkvæmt þeim upplýsingum sem hún hefði fengið frá Hagstofu benti þetta til að um væri að ræða 6 til 6,3 prósenta launahækkun.

„Við mat á launabreytingum aflar Hagstofan skýrslna og gagna sem hún telur nauðsynleg og gerir jafnframt eigin kjararannsóknir eftir því sem hún telur þörf á. Við launaafgreiðslu fyrir júlí uppfærir Fjársýsla ríkisins krónutölufjárhæð til samræmis við tölur Hagstofunnar,“ segir í frétt RÚV.

Spurð hvort til standi að leggja fram frumvarp eða tillögu fyrir þingið um að þessar launahækkanir komi ekki til framkvæmda að fullu sagði Katrín að fyrirkomulagið væri gott, og kerfið væri gagnsætt. 

„Það að við erum ekki leiðandi í launaþróun heldur fylgjum launaþróun ríkisstarfsmanna. Og það er algjörlega fyrirsjáanlegt líka sem var ekki með gamla kerfið með gamla kjararáðinu,“ sagði Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert