Ölvaður hjólreiðamaður á von á kæru

Lögreglan þurfti að hafa afskipti af nokkrum stútum undir stýri …
Lögreglan þurfti að hafa afskipti af nokkrum stútum undir stýri í nótt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að hafa afskipti af þónokkrum ökumönnum í gærkvöldi og nótt sem ýmist voru undir áhrifum áfengis og fíkniefna eða óku of hratt.

Þrjú umferðaróhöpp eru skráð í dagbók lögreglunnar og í tveimur tilfellum kom ölvun við sögu. Í öðru þeirra skullu saman bifreið og reiðhjól og var hjólreiðamaðurinn fluttur á bráðamóttöku með minniháttar áverka. Hann reyndist hins vegar töluvert ölvaður og verður hann kærður fyrir að hafa reynt að stjórna reiðhjóli undir  áhrifum áfengis, að fram kemur í dagbókinni.

Þá var tilkynnt um eld í ökutæki í iðnaðarhverfi í umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði og stuttu síðar var tilkynnt um eld í öðru ökutæki skammt frá. Málið er í rannsókn.

Leigubílstjóri óskaði eftir aðstoð lögreglu þar sem farþegi neitaði að greiða fyrir far. Farþeginn var ölvaður og erfiður í samskiptum og hann von á því að vera kærður fyrir fjársvik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert