Húsleit í Ísrael vegna saltdreifaramálsins

Aðalmeðferð í saltdreifaramálinu svokallaða hófst í Landsrétti í morgun.
Aðalmeðferð í saltdreifaramálinu svokallaða hófst í Landsrétti í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gerð var húsleit hjá manni í Ísrael í upphafi árs í tengslum við saltdreifaramálið svokallaða og hald lagt á minnispunkta þar sem nafn eins sakborninganna í málinu kom fram.

Aðalmeðferð í saltdreifaramálinu hófst í Landsrétti í morgun og hafa viðbótarskýrslur verið teknar af sakborningum í málinu.

Meðal þess sem fram kom af hálfu ákæruvaldsins þegar tekin var viðbótarskýrsla af Guðlaugi Agnari Guðmundssyni var að lögreglan hefði verið í samstarfi við ísraelsk lögregluyfirvöld í upphafi árs þar sem húsleit var gerð hjá manni í Ísrael. Lagt hafi verið hald á minnispunkta þar sem nafn Guðlaugs Agnars hafi komið fram, auk fæðingardags hans. 

Guðlaugur Agnar, sem hlaut 10 ára dóm í héraðsdómi, kvaðst hafa þekkt manninn í mörg ár, en hann hefði kynnst honum í Hollandi. Hann hefði einnig komið á heimili hans í Ísrael.

Taldir vera Ísraelar með tengingar við Holland

Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi í fyrra kom fram að ríkislögreglustjóra hefðu borist gögn og upplýsingar um samskipti manna á dulkóðaða samskiptaforritinu EncroChat. Gögnin voru tekin til skoðunar og hafin greiningarvinna á þeim notendum sem áttu í samskiptum um saltdreifarann og framleiðslu fíkniefnanna með það markmið að finna hvaða einstaklingar stæðu þar að baki.

Það var niðurstaða lögreglu að notandinn Residentkiller væri Halldór Margeir og að notandinn Nuclearfork væri Guðlaugur Agnar. Þá voru notendurnir Neptun og Beigepanda taldir vera Ísraelar, með tengingar við Holland.

Saltdreifaramálið varðar annars vegar inn­flutn­ing am­feta­mín­vökva í miklu magni og hins veg­ar kanna­bis­rækt­un á sveita­bæn­um Hjalla­nesi við Hellu. Voru efnin flutt til landsins með Norrænu frá Hollandi í saltdreifara, en í honum voru faldir 53 lítrar af amfetamínvökva.  Var brotið framið í fé­lagi með tveim­ur óþekkt­um er­lend­um aðilum. Í sam­vinnu við óþekkt­an ís­lensk­an aðila fjar­lægðu þeir am­feta­mín­vökv­ann úr salt­dreif­ar­an­um og fram­leiddu allt að 117,5 kg af am­feta­míni í sölu og dreif­ing­ar­skyni.

Anna Barbara Andradóttir saksóknari sækir málið.
Anna Barbara Andradóttir saksóknari sækir málið. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert