„Ekki hægt að bjóða upp á þetta misrétti“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins. Eggert Jóhannesson

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins (SGS), segir að þær launatöflur sem ríkið býður SGS séu ekki í samræmi við þær sem ríkið er búið að semja um við önnur fyrir sömu störf og sömu starfsheiti.

„Það er bara lífsins ómögulegt að kyngja slíku,“ segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is.

SGS vísaði kjara­deilu sinni við ríkið til rík­is­sátta­semj­ara í gær en kjara­samn­ing­ur milli sambandsins og fjár­mála- og efna­hagsráðherra, fyrir hönd ríkis­sjóðs, rann út í lok mars. Vilhjálmur telur að ekkert annað hafi verið til taks en að vísa deilunni til ríkissáttasemjara.

„Við erum búin að halda ellefu fundi og því miður ber umtalsvert mikið á milli og við sjáum okkur ekki annað fært.“

BSRB með hærri laun fyrir sömu störf

„Það liggur fyrir að launatöflur BSRB við ríkið fyrir sambærileg störf eru hærri en ríkið vill bjóða okkur,“ segir hann. Það geti munað um 10.000-20.000 krónum í mánaðarlaun á milli launataflna. „Þegar það er svona mikill munur á milli stéttafélaga verður maður að leiðrétta slíkt missi.“

„Við getum ekki sætt okkur við þetta misrétti þarna sem er í gangi,“ segir hann. „Þetta er að mínum dómi brot á jafnréttislögum, eins og BSRB er líka að benda á í sínum viðræðum í sínum deilum.“

Vonast eftir fundi á föstudaginn

Vilhjálmur segir að það sé mikill einhugur meðal aðildarfélaga SGS um að lagfæra mismuninn. SGS óskar nú eftir því að ríkissáttasemjara boði til fundar eins fljótt og auðið er, þar sem málið sé aðkallandi. Hann vonast til þess að sá fundur geti orðið á föstudaginn.

„Við erum að tala um tekjulægsta fólkið sem starfar hjá ríkinu. Því er mjög mikilvægt að hraða þessu máli því fólk verður að fá sínar launahækkanir eins fljótt og hætt er sökum þeirra miklu kostnaðarhækkana sem hafa orðið á öllum sviðum íslensks samfélags á liðnum misserum.“

Efling samdi í gær

Samn­inga­nefnd Efl­ing­ar skrifaði und­ir kjara­samn­ing við ríkið í gær­kvöldi eftir að henni hafði verið vísað til sáttasemjara. Var um að ræða starfsfólk á Land­spít­al­an­um og smærri hópa á ýms­um rík­is­stofn­un­um. Vilhjálmur segir að svipaður munur sé á milli launataflna Eflingar og BSRB en hann viti ekki hvort um sé að ræða sömu starfsheiti.

„Ég hef skoðað samninginn sem Efling gerði. Það er alveg ljóst að sá mismunur sem er á launatöflum BSRB og Eflingar sé einfaldlega allt of mikill,“ segir Vilhjálmur en bætir þó við að hann viti ekki hvort Efling hafi áttað sig á þeim mun eða hvort um væri að ræða sömu starfsheiti.

Hátt í 1500 starfsfólk gæti lagt niður störf

Hann segir að ef deilan leiði til verkfalls séu hátt í 1.500 manns sem myndu leggja niður störf víða um landið.

„Það er allt fólk í ræstingu á öllum heilbrigðisstofnunum vítt og breitt um landið, fólk í ummönnun, mötuneytum sjúkrahúsanna, skógrækt og fleiri. Þetta eru í kringum 1000-1.500 manns víða um landið,“ segir hann.

„Ég vona innilega að ríkið átti sig á því að það er ekki hægt að bjóða upp á þetta misrétti,“ bætir Vilhjálmur við að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert