Ekki bjartsýnn fyrir næsta fund

Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS, og Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttarsemjari.
Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS, og Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttarsemjari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fundi á milli Starfsgreinasambandsins (SGS) og samninganefndar ríkisins lauk í Karphúsinu á fjórða tímanum eftir hádegi í dag. Sáttasemjari hefur blásið til fundar á fimmtudaginn en Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS kveðst ekki vera bjartsýnn.

„Settur ríkissáttasemjari setti fund á næsta fimmtudag en það er hins vegar alveg ljóst að það ber umtalsvert mikið á milli og það verður bara að koma í ljós hvert þetta mun leiða okkur,“ segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is.

SGS vísaði kjaradeilunni til ríkissáttasemjara fyrr í vikunni. Sambandið heldur því fram að launatöflurnar sem standi þeim til boða séu ekki í sam­ræmi við þær sem ríkið hefur samið um við önn­ur stétt­ar­fé­lög, t.a.m. BSRB, fyr­ir sömu störf og sömu starfs­heiti. Það geti verið allt að 20.000 króna mun­ur á mánaðarlaun­um á launa­töfl­um SGS og BSRB.

„Við fórum yfir tölfræðina og sýndum þau gögn sem við styðjumst við. Þau eru svo sem alveg staðfest. Það er enginn ágreiningur um það,“ segir hann.

„Á meðan fólk er að tala saman er alltaf von“

„Ágreiningurinn lýtur að vilja til að leiðrétta þennan mun– sömu laun fyrir sömu störf. Það er ekki komin niðurstaða í það mál. Við höfum ekki fengið vilyrði fyrir því að hálfu samninganefndar ríkisins,“ segir Vilhjálmur og bætir við að sama hvernig litið sé á deiluna þá muni kostnaðurinn alltaf lenda á ríkinu sama hvernig málið endar.

„Það þarf bara að finna lausn á því hvernig við göngum endanlega frá þessu,“ segir hann.

Ertu bjartsýnn fyrir næsta fund?

„Nei, ég skal fúslega viðurkenna það að ég er ekkert allt of bjartsýnn núna þegar við erum búin að funda tólf sinnum, en á meðan fólk er að tala saman er alltaf von. Það hef ég nú lært á eftir tuttugu ár við kjarasamningsgerð“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert