Léttur bjór og ítölsk vín vinsælust

Innlendur bjór nýtur mestra vinsælda hjá neytendum.
Innlendur bjór nýtur mestra vinsælda hjá neytendum. mbl.is/Hákon

Sala á áfengi dróst saman um 8,4% í lítrum talið í Vínbúðunum í fyrra. Jafnvægi virðist hafa náðst í sölu hjá ÁTVR eftir mikla aukningu á tímum kórónuveirunnar þegar samkomutakmarkanir voru ríkjandi og ferðalög til útlanda voru í lágmarki. Viðskiptavinum fækkaði um 5,3% á milli ára í Vínbúðunum. Þetta kemur fram í nýútkominni ársskýrslu ÁTVR fyrir árið 2022.

Þegar rýnt er í einstaka þætti ársskýrslunnar má sjá ýmislegt forvitnilegt er snýr að neyslumynstri Íslendinga.

Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu er vinsælasti bjór á Íslandi Gull Lite en hann velti úr sessi Víking Gylltum sem var um árabil sá vinsælasti. Vinsælasta einingin er í hálfs lítra dósum og seldust ríflega 1,1 milljón lítrar af Lite þannig á móti tæpri milljón af Gylltum. Sá létti er hins vegar einnig afar vinsæll í litlum dósum og samtals drukku Íslendingar 1,9 milljónir lítra af Gull Lite á síðasta ári. Aðrir vinsælir bjórar voru Boli, Egils Gull, Tuborg grænn, Tuborg Classic, Faxe Premium, Víking Lite og Víking Lager. Faxe er eini erlendi bjórinn sem kemst á topp tíu yfir þá vinsælustu.

mbl.is/Hákon

Í flokknum öl og aðrar bjórtegundir er Einstök Artic Pale Ale mest selda tegundin. Þar á eftir kemur Einstök White Ale og Bóndi er í þriðja sætinu. Guinness á sína aðdáendur og er fjórði vinsælasti bjórinn í þessum flokki.

Þegar horft er til léttvína er ljóst að Íslendingar kjósa helst vín frá Ítalíu. Um 39% rauðvína sem hér seljast eru ítölsk. Sama gildir um hvítvín en 33% seldra hvítvína eru ítölsk. Sopinn er dýr á Íslandi enda skattlagður í botn og það skýrir kannski að flestir virðast kjósa að kaupa léttvín í beljum og fernum. Þá eru flest vinsælustu vínin í flokki þeirra ódýrustu.

Mest selda rauðvínið á Íslandi er rétt eins og fyrri ár Tommasi Appassionato Graticcio, hvort sem litið er til belja eða flaska. Um 72% meiri sala var á umræddu víni í belju en á næstvinsælustu tegundinni í þeim flokki. Næstvinælasta flöskuvínið er Baron de Ley Reserva frá Spáni. Af hvítvínum rennur Montalto Pinot Grigio helst ofan í fólk úr beljum en Barefoot Pinot Grigio er mest selda hvítvínið í flöskum. Íslendingar eru greinilega orðnir vanafastir því þetta eru sömu vín og hafa trónað á lista yfir þau mest seldu síðustu ár. Aðeins eitt vín frá Frakklandi kemst inn á lista yfir mest seldu léttvínin; E. Guigal Cotes du Rhone-rauðvín í flösku.

Sala á sígarettum dróst saman um tæp 15% á síðasta ári. Alls seldist sem nemur 24 sígarettupökkum á hvern landsmann eldri en 15 ára, fimm færri en árið á undan. Sala á vindlum og reyktóbaki dróst sömuleiðis umtalsvert saman milli ára. Sala á neftóbaki hjá ÁTVR minnkaði um 24% en hún hefur verið á hraðri niðurleið síðan nikótínpúðar hófu hér innreið sína.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert