Heimsmet í geðlyfjaáti

Jakob Frímann Magnússon þingmaður lét vaða á súðum í ræðustól …
Jakob Frímann Magnússon þingmaður lét vaða á súðum í ræðustól í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Viðskiptavinir gríðarlega ánægðir, það gekk allt rosalega vel og allir voða kátir, starfsmenn og viðskiptavinir. Allt gekk vel nema fjármálin, þau voru að vísu í tómu tjóni,“ sagði Jakob Frímann Magnússon, þingmaður Flokks fólksins, í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag.

Beindi Jakob máli sínu að stöðu ýmissa fyrirtækja á landsbyggðinni. „Ég nefni þetta bara í því samhengi að við tölum hér um alla skapaða hluti en komum okkur alltaf undan umræðunni um núverandi fjárhags- og efnahagsástand,“ sagði þingmaðurinn og kvað hreinan ólgusjó hafa ráðið frá stofnun lýðveldis á Íslandi.

„Engin patent-lausn“

„Ófyrirsjáanleikinn er stöðugur, eitt í dag, annað á morgun. Það er sjálft kerfið, það er efnahagskerfið, sem við þurfum að grandskoða,“ sagði hann enn fremur og kvaðst hafa leyft sér í aðsendri grein á Vísi í gær að setja geðheilsu Íslendinga og „heimsmet í geðlyfjaáti“ í samhengi við óstöðugleika íslensks efnahagslífs sem kynslóð eftir kynslóð hefði mátt búa við.

„Það er engin ein patent-lausn til á því, það þarf að hugsa hluti upp á nýtt. Það þarf að setja það á dagskrá eitt og sér að við getum ekki boðið börnum okkar og framtíðarkynslóðum upp á það ástand sem við höfum látið bjóða okkur. Það er engum einum að kenna, það er geðleysi okkar sjálfra að kenna að þora ekki að horfast í augu við þetta.

9,93 prósent

Ég vil að við höldum ráðstefnu um íslenskt efnahagslíf til frambúðar á komandi þingi og ræðum með atbeina bestu manna og kvenna hvernig við getum komið okkur út úr þeim veruleika að í Danmörku eru húsnæðislán með eins prósenta vöxtum en í dag – og ég fletti því upp – eru 9,93 prósent vextir [á Íslandi]. Þetta er ávísun á vanlíðan, þetta er ávísun á aukin heilbrigðisvandamál á Íslandi,“ sagði þingmaðurinn að lokum áður en bjallan glumdi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert