Sagði sig úr kjörnefndinni

Guðrún Stella Gissurardóttir, sem átti sæti í kjörnefnd Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, sagði sig í gær úr nefndinni þar sem ekki var áhugi fyrir að taka kærur Vilhjálms Egilssonar og stuðningsmanna hans þar til umfjöllunar.

Fundur var haldinn í nefndinni í gær þar sem unnið er að því að ganga frá framboðslista Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu fyrir alþingiskosningarnar í vor en að sögn Jóhanns Kjartanssonar, formanns nefndarinnar, var listinn ekki ákveðinn í gær enda hefði það ekki staðið til. Að loknum fundinum sagði Guðrún Stella sig hins vegar úr nefndinni.

"Mér fannst að kjörnefndarmenn, og þá ekki síst formaður kjörnefndar, væru ekki tilbúnir að taka til umfjöllunar þær kærur sem eru komnar fram frá Vilhjálmi Egilssyni og stuðningsmönnum hans," segir hún. "Það voru ekki komnar fram formlegar kærur þegar þessi nefnd hittist síðast og ég taldi þær hafa breytt stöðunni. Það virtist hins vegar ekki vera vilji til þess að fara yfir kærurnar og ég sá mér ekki fært að starfa lengur í nefndinni undir því."

Hún segist ítrekað hafa reynt að fá nefndina til að fjalla um málið auk þess sem hún hafi setið hjá við atkvæðagreiðsluna um kosningarnar í Borgarnesi. "Mér fannst steininn taka úr þegar formaður nefndarinnar sagðist ekki hafa áhuga á að lesa greinargerð Vilhjálms og er ég þó ekki neinn sérstakur stuðningsmaður hans. Þetta er einfaldlega prinsippatriði."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert