Starf kirkjunnar fyrir atvinnulausa

Kirkjan stefnir að því að standa reglulega fyrir fyrirlestrum um atvinnuleysi og áhrif þess á líðan fólks og koma sérstakri dagskrá fyrir atvinnulausa á laggirnar. Vonast sr. Jakob Ágúst Hjálmarsson dómkirkjuprestur til þess að starfið geti hafist innan skamms. Slíkt starf hafi verið prófað undanfarið og nú sé leitað leiða til að því verði haldið áfram.

Leitað verði eftir samstarfi innan verkalýðshreyfingarinnar og fleiri aðila, m.a. til að fjármagna verkefnið. Kirkjan hafi í upphafi tíunda áratugarins staðið fyrir starfi fyrir atvinnulausa sem hafi gefist vel.

Síðustu mánuði hafi nokkur hópur fólks komið saman á vegum kirkjunnar undir handleiðslu Bryndísar Valbjarnardóttur guðfræðings og Ragnheiðar Sverrisdóttur, Biskupsstofu, til að ræða atvinnuleysi og deila reynslu sinni. Starfinu hafi verið komið á fót eftir að um 200 manns var sagt upp í einu lagi hjá Íslenskri erfðagreiningu í haust.

Sr. Jakob telur mikla þörf fyrir starf af þessu tagi og segir mikilvægt að gefa andlega þættinum gaum. Margir upplifi sterkar tilfinningar við atvinnumissi og þegar þeir geri sér grein fyrir því að þeir muni kannski ekki fá aðra vinnu í bráð. Kirkjan vilji vera til staðar og hjálpa fólki sem eigi um sárt að binda vegna atvinnuleysis. Starfið mun líklegast fara fram í einhverju safnaðarheimilanna á höfuðborgarsvæðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert