Grásleppukarlarnir íhuga að hætta veiðum

Framleiðendur kavíars hafa lækkað verð á grásleppuhrognum um 10 þúsund krónur, úr 70 þúsund krónum fyrir tunnuna í 60 þúsund krónur. Framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda segir grásleppukarla afar óhressa og margir íhugi að hætta veiðum.

Grásleppuvertíðin hófst hinn 20. mars á svæðinu frá Skagatá í vestri úti fyrir Norðurlandi, Austfjörðum og Austurlandi að Garðskaga en hinn 1. apríl á öðrum landsvæðum. Fyrir vertíðina gáfu kavíarframleiðendur út 70 þúsund króna viðmiðunarverð fyrir tunnuna af grásleppuhrognum. Í bréfi sem Vignir G. Jónsson hf., kavíarframleiðandi á Akranesi, sendi grásleppuveiðimönnum hinn 25. apríl sl. segir að vegna mikillar veiði og lægri verðtilboða á söltuðum grásleppuhrognum frá Noregi og Grænlandi sé óhjákvæmilegt að lækka uppgjörsverð á grásleppuhrognum. Frá og með 19. apríl verði viðmiðunarverð á grásleppuhrognum lækkað úr 70 þúsund krónum fyrir tunnuna í 60 þúsund krónur.

Minni veiði í Noregi

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir verðlækkunina ósanngjarna, einkum vegna þess að fullyrðing um meiri veiði sé beinlínis röng. Samkvæmt upplýsingum frá norsku fisksölusamtökunum sé nú 10% minni grásleppuveiði í Noregi en í fyrra. Grænlenskir grásleppuveiðimenn hafi fyrir vertíðina stefnt að því að veiða 10 þúsund tunnur og ekkert bendi til þess að veiðin verði meiri þar á vertíðinni. Hér á landi stefni í að veiðin verði 30-40% meiri en í fyrra en þá var veiðin um 10.300 tunnur. "Veiðin hefur gengið mjög vel á ýmsum svæðum og útlit fyrir að aflinn aukist eins og stefnt var að. Við teljum markaðinn eiga að þola þá aukningu."

Örn segir að fleiri framleiðendur hafi lækkað verðið á hrognunum. "Mér virðist sem framleiðendur séu nú að leika sama leik og undanfarin ár. Mönnum er stefnt á veiðar og lofað góðu verði fyrir hrognin en verðið síðan lækkað þegar vertíðin er langt komin. Grásleppukarlar eru vitanlega mjög slegnir vegna þessa og sumir segjast munu taka upp netin og hætta veiðum. Aðrir hafa hins vegar lagt út í mikinn kostnað fyrir vertíðina og verða að hafa tekjur út úr henni."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert