Heimilt að skoða nýjar útfærslur

Viðar Ólafsson, verkfræðingur og framkvæmdastjóri Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen, VST, sem var settum umhverfisráðherra til ráðgjafar við úrskurð um Norðlingaölduveitu og lagði fram tillögu um 566 metra lónhæð, segir að Landsvirkjun sé fullkomlega heimilt að kanna aðrar útfærslur þar sem úrskurðurinn hafi fyrst og fremst kveðið á um að lónið færi ekki inn fyrir friðland Þjórsárvera. Ekki hafi verið minnst á lónhæð í úrskurðinum og tillaga VST aðeins verið fylgiskjal.

Viðar bendir á að miðlunarlón geti tekið breytingum eftir árstíðum og veðurfari og erfitt sé að negla niður eina stærð. Fari hæðin t.d. upp í 568,5 metra fari lónið alveg upp að friðlandsmörkum Þjórsárvera.

"Við settum fram hugmynd í vetur sem byggðist á því að fara ekki hærra með lónið en í 566 metra. Það gerðum við til að geta reiknað út kostnað og skoðað tæknilegar útfærslur. Úrskurðurinn var síðan öðruvísi og sagði efnislega að ekki mætti fara inn í friðlandið. Á þessu er munur og eðlilegt í sjálfu sér að Landsvirkjun skoði í smáatriðum hvaða leið sé best og setji mörkin einhvers staðar. Mér er hins vegar ekki kunnugt um niðurstöðu á þeirra vinnu," segir Viðar.

Haft hefur verið eftir upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar, Þorsteini Hilmarssyni, að fyrirtækið áformi svipaðan búnað ofan á stíflu Norðlingaölduveitu og er í Sultartangavirkjun, þ.e. uppblásna gúmmíbelgi sem hækki yfirborð lónsins um tvo metra en hægt sé að hleypa úr ef svo beri undir. Viðar segist kannast vel við þennan búnað þar sem VST hafi hannað slíka útfærslu fyrir Sultartangastíflu. Verkfræðistofan hafi einnig gert ráð fyrir gúmmíbelgjum og botnlokum í tillögu að lónhæð upp á 566 metra.

"Þetta er fyrst og fremst spurning um rekstraröryggi. Við vitum af því að Landsvirkjunarmenn höfðu áhyggjur af því að lónhæð sem við sýndum dæmi um gæti orðið erfið, rekstrarlega séð, aðallega vegna hættu á ískrapafyllingu í lóninu og öðru þess háttar. Við höfum viðurkennt að þetta geti verið rétt og ég skil áhyggjur Landsvirkjunar. Raunverulegur rekstur myndi sýna hvað gengur og hvað ekki. Landsvirkjun er væntanlega að hugsa um að geta hækkað í lóninu á þeim árstíma þegar allt er frosið og á kafi í snjó. Þá skiptir hæðin í sjálfu sér ekki öllu máli. Ég sýni því fullan skilning að Landsvirkjun sé að skoða aðrar leiðir, enda var okkar tilhögun forathugun á hugmynd sem var ekki mikið unnin. Nú hefur Landsvirkjun unnið þetta áfram og eftir því sem menn vinna meira þeim mun skýrari verða forsendurnar," segir Viðar.

Ekki á skjön við úrskurð

Útfærslu Landsvirkjunar um 568 metra lónhæð hefur verið harðlega mótmælt af náttúruverndarsamtökum og talsmönnum stjórnarandstöðuflokkanna, samanber ummæli þeirra í Morgunblaðinu í gær. Varðandi þau mótmæli segir Viðar að ekki sé með nokkru móti hægt að halda því fram að Landsvirkjun sé að fara á skjön við úrskurð setts umhverfisráðherra. Úrskurðurinn hafi verið skýrt orðaður og sömuleiðis hafi komið skýrt fram í inngangi að tilhögun VST að hún væri eingöngu dæmi um hvað hægt væri að gera. "Strax eftir úrskurðinn nálguðust menn málið með mismunandi hætti. Náttúruverndarsamtök vildu skilja þetta með eins lágu vatnsborði og hægt er. Sú umræða kemur aftur upp núna vegna þess að kosningar eru í nánd, það er augljóst. Í sjálfu sér hefur ekkert annað breyst," segir Viðar.

Hann bendir ennfremur á að einn umhverfissérfræðinga Jóns Kristjánssonar í málinu, Írinn Conor Skehan, hafi lagt mikla áherslu á að gefa þyrfti framkvæmdaraðila veitunnar ákveðið frelsi. Ekki hafi verið hægt að negla hann niður við ákveðið dæmi. Nú sé að koma í ljós að náttúruverndarsinnum líki ekki þetta frelsi. Viðar segir meginniðurstöðuna vera ánægjulega og flestir geti verið sáttir við að lónið sé komið út fyrir friðlandið. Framhaldið sé aðeins spurning um útfærslur, þannig þurfi hærra vatnsborð að vetrarlagi ekki að breyta öllu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert