40% flugfreyja áreitt kynferðislega

Tæplega 40% flugfreyja hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í vinnunni og rúm 30% tvisvar sinnum eða oftar. Kynferðisleg áreitni er mun fátíðari meðal starfsmanna útibúa banka og sparisjóða, eða 2%, en um 18% hjúkrunarfræðinganna hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað og höfðu 8% verið áreitt tvisvar eða oftar. Af þessum niðurstöðum má draga þá ályktun að starfsaðstæður skipti miklu máli varðandi kynferðislega áreitni á vinnustað.

Þetta eru niðurstöður kannana sem Rannsóknarstofnun í hjúkrunarfræði hefur gert á líðan, heilsufari og vinnuumhverfi nokkurra starfshópa þar sem konur eru í meirihluta. Voru rannsóknirnar gerðar á árunum 2000-2003.

Í rannsókn á heilsufari hjúkrunarfræðinga sem gerð var af stúdentum í hjúkrunarfræði vorið 2001 undir stjórn Herdísar Sveinsdóttur, formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og dósents við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, kemur fram að um 19% þeirra höfðu orðið fyrir hótunum, einelti eða líkamlegu ofbeldi á síðustu sex mánuðum áður en spurningalistinn var lagður fyrir. Þetta átti við um 12% flugfreyja, 15% starfsmanna í útibúum banka og sparisjóða, 14% starfsfólks á leikskólum í Reykjavík og 12% hjá konum í öldrunarþjónustu á Íslandi.

Tæpum helmingi hjúkrunarfræðinga (45%) fannst starfið mjög eða frekar erfitt líkamlega. Þetta eru talsvert aðrar niðurstöður en hjá starfsfólki í öldrunarþjónustu en þar töldu 74% starfið fremur eða mjög erfitt. Um 68% starfsmanna í leikskólum töldu starfið erfitt en aðeins 9% starfsmanna í bönkum og sparisjóðum. Af flugfreyjum sögðu 75% að starfið væri fremur eða mjög erfitt.

Að samræma vinnu og fjölskyldu

Hjúkrunarfræðingunum virðist reynast erfiðara að samræma fjölskyldulíf og atvinnu en öðrum starfshópum. Kröfur vinnunnar stönguðust að einhverju leyti á við þarfir fjölskyldunnar og þarfir fjölskyldunnar á við vinnuna hjá um og yfir helmingi hjúkrunarfræðinganna. Enn fremur sagði ein af hverjum fimm (20%) að erfitt væri að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf og átti það aðallega við um konur í aldursflokknum 34 ára og yngri. Til samanburðar má nefna að um 16% flugfreyja sögðu þetta reynast sér erfitt og 8% starfsmanna útibúa banka og sparisjóða.

Minna var um reykingar meðal hjúkrunarfræðinga (15%) en annarra starfsstétta. Til dæmis reyktu 8% hjúkrunarfræðinga daglega en 13% flugfreyja, 17% starfsmanna útibúa banka og sparisjóða og 29% starfsfólks á öldrunarstofnunum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert