Mikilvægt að allt sé gert til að varðveita stöðugleikann

Ólafur Ragnar Grímsson setur Alþingi.
Ólafur Ragnar Grímsson setur Alþingi. mbl.is/Jim Smart

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands sagði, þegar hann setti Alþingi í dag, að Íslendingar væru ekki lengur eigin herrar í efnahagsmálum á sama hátt og fyrrum var reglan. Hagstjórnin væri því á ýmsan hátt orðin erfiðari og mikilvægt að allt sé gert til að varðveita stöðugleikann. Átján nýir þingmenn voru kjörnir í kosningunum 10 maí og gerði sagði Ólafur Ragnar að aldrei fyrr í sögu þingsins hefðu jafn margir ungir þingmenn sest á Alþingi. Fróðlegt yrði að sjá hvaða áhrif þessi nýja kynskóð hefði á störf þingsins og umræðuna í landinu.

Ólafur Ragnar sagði að þjóðin hefði nú sent til þings yngri kynslóð en hér hefði sést um áraraðir. Þetta væri kynslóð sem komist hefði til þroska á tíma alþjóðavæðingar og upplýsingabyltingar, fóstruð í samfélagi þar sem sjónvarp væri sterkastur miðla. Kynslóð sem myndi ekki annað Ísland en sjálfstætt og sterkt og þekkti landhelgisstríð, stéttaátök og hatramma glímu um her og NATO nánast eingöngu úr sögubókum.

„Hvaða augum lítur hún 100 ára afmæli heimastjórnar. Hvaða sess skipar sjálfstæðið í hennar huga. Hvernig skilgreinir hún vegferð sína, ætlunarverk og aðferðir við ákvarðanir. Hvaða áhrif mun innganga þessa unga fólks á Alþingi sjálft?" sagði Ólafur Ragnar. Sagði hann að samsetning þingsins hefði tekið stakkaskiptum og það yrði fróðlegt að fylgjast með því hvaða áhrif þessi nýja kynslóð hefði á störf þingsins, umræðuna í landinu, lýðræðisskipan og stefnuþróun.

Ólafur Ragnar sagði einnig að Alþingi þyrfti að taka tillit til nýrrar kjördæmaskipunar. Sagði hann mikilvægt að varðveita það lifandi og nána samband sem löngum hefði einkennt tengsl þingmanna við byggðarlögin. „Íslenskt lýðræði yrði til muna fábrotnara ef fjölmiðlar og hagkvæmni stærðarinnar myndu að mestu ráða för. Það er einkum í návíginu í hinum smærri byggðum sem mest reynir á fulltrúa fólksins," sagði Ólafur Ragnar. Sagðist hann vona að Alþingi tækist að varðveita traustar lýðræðishefðir sem sprottnar væru úr grasrótinni og nýta á vettvangi nýrra kjördæma.

Þá sagði Ólafur Ragnar að Ísland væri ekki lengur einöngruð eyja. Hagstjórnin væri ekki lengur einöngruð eyja heldur á opnum velli þar sem straumar úr öllum áttum gætu á skömmum tíma gert að engu glæstar vonir. „Við búum við alþjóðlegan fjármagnsmarkað. Fyrirtæki og einstaklingar geta flutt eignir og auð úr landi án minnstu fyrirhafnar. Bankar og lánasjóðir eru hluti af víðara neti og vextir og kjör taka mið af mörgu öðru en innlendum kjörum. Og gengið lýtur nú flóknari lögmálum en áður mótuðu ákvarðanir. Afleiðingin af öllu þessu er að við erum ekki eigin herrar í efnahagsmálum á sama hátt og fyrrum var reglan. Hagstjórnin er því á ýmsan hátt orðin erfiðari og mikilvægt að allt sé gert til að varðveita stöðugleikann þótt fast sé knúið á í mörgum efnum," sagði Ólafur Ragnar.

Hann sagði að framundan væru mestu framkvæmdir Íslandssögunnar, víðtæk umræða hefði verið um gagngerar breytingar á skattakerfi og húsnæðismálum og fyrirheit gefin um bættan hag margra sem borið hefðu skarðan hlut frá borði á síðari ári. „Það verður vandaverk að láta allt þetta ganga upp í með hliðsjón af því hve hagkerfi okkar er nú opið gagnvart umheiminum. Alþingi ber í þessum efnum mikla ábyrgð því ríkisfjármál, skattastefna og framkvæmdastig marka vöxtum og gengi, verðlagi og stöðugleika ákveðnar brautir."

Forsetinn sagði að Íslendingar hefðu á annan áratug búið við stöðugleika og verðbólgustig sem á fyrri árum hefði aðeins verið fjarlægur draumur. Bresti þessi stöðugleika myndi illa fara. „Við treystum því allir, Íslendingar, að Alþingi muni á komandi árum feta þessa braut af ábyrgð og festu og finna það jafnvægi í ákvörðunum sem tryggir að stöðugleiki og farsæld þjóðar, aukin velferð og traust atvinnulíf haldist í hendur," sagði Ólafur Ragnar Grímsson.

Dagný Jónsdóttir, einn af nýjum þingmönnum sem sest nú á …
Dagný Jónsdóttir, einn af nýjum þingmönnum sem sest nú á Alþingi, var íklædd peysufötum, ein þingkvenna. mbl.is/Jim Smart
Alþingi var sett í dag. Hér ganga Ólafur Ragnar Grímsson …
Alþingi var sett í dag. Hér ganga Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands og Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur út úr Alþingishúsinu áleiðis til Dómkirkjunnar. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert