"Vildi skilja við þennan heim og eineltið"

Sófus Bertelsson lenti ungur í einelti sem særði hann djúpt. …
Sófus Bertelsson lenti ungur í einelti sem særði hann djúpt. Hann vonar að frásögn sín veki fólk til umhugsunar og gagnist Regnbogabörnum. Morgunblaðið/Golli

"Eineltið byrjaði um fjögurra eða fimm ára aldur. Ég ólst upp hjá stjúpmóður minni sem ég á mikið að gjalda, hún var ekta fín kona. En sá var gallinn á henni að hún var smámælt og þaðan kom eineltið. Það var verið að herma eftir henni og skella því á mig. Af því að ég heiti Nikolaj, þá var alltaf hrópað "Fúþi hæ Nikolæ!" Hún kallaði mig nefnilega alltaf Fúsa, því henni var illa við Nikolaj-nafnið."

Þetta segir Sófus Bertelsson, tæplega níræður Hafnfirðingur sem hefur ritað sögu byggða á einelti sem hann varð fyrir í æsku.

Sófus segir nafnið Nikolaj vekja svo slæmar tilfinningar að hann hafi reynt alla sína ævi að láta það hverfa.

"Í barnaskóla var alltaf, bæði á göngunum og úti á leikvanginum, verið að uppnefna mig með hrópum. Þetta fór mjög illa í mig, og ekki nóg með að þarna væru börn að uppnefna mig, heldur var líka fullorðið fólk að herma eftir fóstru minni. Kennararnir hlógu bara að þessu og fannst ekkert að því. Á unglingsárunum leiddi ég margoft hugann að því að segja skilið við þennan heim og eineltið."

Glataði æskuást vegna eineltis

Sófus hefur gefið út ljóðabækur og skáldsögu um kreppuárin í Hafnarfirði.

"Ég ákvað það þegar ég var í barnaskóla að ég ætlaði að verða ljóðskáld og rithöfundur þegar ég yrði stór," segir Sófus.

Eineltið olli afar djúpri vanlíðan hjá Sófusi. "Ég var sendur sjö, átta ára í sveit og þar var lítil telpa sem ég gætti og gerði mjög vel við. En svo tíu árum seinna kom ég aftur á bæinn. Þá var þessi stúlka orðin sautján ára og ég varð ofsalega hrifinn af henni, en ég vildi ekki fara í samband við hana, því ég vildi ekki láta eineltið mitt bitna á henni. Ég hélt henni því alltaf frá mér. Um það snýst sagan sem ég skrifaði. Ég missti af þessari fallegu stúlku út af eineltinu.

Svo fór ég til Danmerkur 1937 og náði þar smásambandi við sjálfan mig og fékk að vera í friði. Ég kynntist konunni minni þegar ég kom heim aftur og hef lifað ágætu lífi síðan."

Sófus var mikill íþróttamaður og myndarlegur ungur maður og er stofnmeðlimur í Haukum. Hann ber því skýrt vitni að það þarf ekki að vera frábrugðinn eða skrýtinn til að verða fórnarlamb eineltis.

En eineltið lifir lengi og fyrir átta árum flutti gamall skólafélagi Sófusar í þjónustuíbúð í sömu blokk og Sófus. "Og þá hitti ég hann aldrei svo á göngunum að hann hrópaði ekki "Fúþi hæ Nikolæ!" á eftir mér, áttræður maðurinn."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert