Göt boruð á olíutanka Guðrúnar Gísladóttir til að dæla olíunni út

Guðrún Gísladóttir KE sekkur í Nappstraumen við Norður-Noreg.
Guðrún Gísladóttir KE sekkur í Nappstraumen við Norður-Noreg.

Norska blaðið Lofotposten segir í dag að olía sé í mörgum tönkum í flaki Guðrúnar Gísladóttur, sem sökk við Norður-Noreg í fyrra. Hefur blaðið eftir Ottar Longva, deildarsjóra hjá norsku siglingamálastofnuninni að væntanlega þurfi að bora göt á þessa tanka til að dæla olíunni út. Ekki er gert ráð fyrir að fiskur, sem er í lestum skipsins, verði fjarlægður.

Norska ríkisstjórnin heimilaði siglingamálastofnuninni í gær að grípa til aðgerða til að fjarlægja olíuna úr skipinu vegna mikillar mengunarhættu en björgunaraðgerðir íslenskra aðila hafa dregist mjög á langinn.

Longva segir í viðtalinu að hann hafi vonast til að Íslendingarnir ynnu sjálfir þetta verk en hann sé ánægður með að stjórnvöld hafi nú gripið inn í. Segir hann að stofnunin hafi undirbúið sig fyrir að þessi staða kæmi upp og því verði hægt að bjóða verkið út fljótlega. Hann segist ekki geta áætlað hvað það muni kosta fyrr en tilboð hafa borist.

Þá segir Longva að hann geti ekki áætlað hvað verkið taki langan tíma, það fari m.a. eftir veðri, en talið sé að hægt verði að dæla mestu af olíunni úr flakinu innan ekki of langs tíma.

Hann segir að aðgerðirnar séu vegna yfirvofandi mengunarhættu og því verði fiskurinn í lestum skipsins látinn vera að þessu sinni. Væntanlega verði hann ekki fjarlægður nema flakinu verði lyft upp og slíkt kalli á sérstaka ákvörðun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert