Íslenskur friðargæsluliði slapp naumlega við fyrirsát í Afganistan

Magnús með dóttur sinni Kristínu Helgu við komuna til Keflavíkurflugvallar …
Magnús með dóttur sinni Kristínu Helgu við komuna til Keflavíkurflugvallar í fyrrakvöld.

"Þeir voru að ferja okkur frá Kabúl yfir til Úsbekistan þar sem skipt er um flugvél. Þeir tóku helminginn í þessa rútu og ég var svo heppinn að vera í seinni rútunni sem fór einum degi síðar," sagði Magnús Hartmann Gíslason, íslenskur friðargæsluliði í Afganistan, í samtali við Morgunblaðið, en hermdarverkaárás var gerð á fyrri rútuna á laugardag með þeim afleiðingum að fjórir þýskir friðargæsluliðar létust og tólf eru alvarlega slasaðir.

Magnús kom heim í fyrrakvöld og verður hér á landi í tíu daga leyfi áður en hann heldur aftur til friðargæslustarfa í Afganistan, en hann hefur verið þar undanfarna þrjá mánuði.

Hann sagði að um hefði verið að ræða 32 manna rútu, en hópurinn hefði verið ferjaður í tvennu lagi með dags millibili út á flugvöllinn í Kabúl. Þaðan hefði verið flogið með þýskum herflutningavélum til Úsbekistan og þaðan á herflugvöll í Köln í Þýskalandi. Í fyrri rútunni hefðu eingöngu verið þýskir friðargæsluliðar en í þeirri síðari fólk af fleiri þjóðernum. Árásin hefði verið gerð á leiðinni út á flugvöllinn í Kabúl frá herstöðinni sem væri höfuðstöðvar friðargæsluliðsins.

Hann sagði að mönnum hefði brugðið illa við árásina, enda væri um að ræða fyrstu skipulögðu árásina á öryggisgæslusveitinar í Afganistan. Áður hefðu sveitirnar orðið fyrir óhöppum. Ekið hefði verið á jarðsprengjur og skotið hefði verið á sveitirnar af handahófi, "en þetta er fyrsta skipulagða árásin og menn hafa áhyggjur af því ef þessu heldur fram, svona sjálfsmorðsárásum," sagði Magnús ennfremur.

Árásin fór þannig fram að bíl var ekið upp að rútunni og hann sprengdur í loft upp með fyrrgreindum afleiðingum. Magnús sagði að talið væri að í bifreiðinni sem sprengd var í loft upp hefðu verið um 130 kíló af TNT sprengiefni. Fjórir hefðu látist og tólf væru alvarlega slasaðir, en allir sem verið hefðu í rútunni hefðu slasast eitthvað.

Magnús sagði að þetta væru mjög slæmar fréttir og kæmu í kjölfar þess að flugvél hefði farist yfir Tyrklandi fyrir skömmu með 62 spænskum friðargæsluliðum innaborðs sem hefðu verið á leið heim til sín og einnig hefði þýskur friðargæsluliði ekið á skriðdrekasprengju á léttum jeppa með þeim afleiðingum að hann hefði látist og félagi hans slasast.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert