Uppgröftur hafinn við Þingvallakirkju

Fornleifauppgröftur er hafinn á Þingvöllum annað sumarið í röð. Grafið er við Þingvallakirkju í Biskupshólum þar sem Adolf Friðriksson, forstöðumaður Fornleifastofnunar Íslands, segir miklar líkur á að séu gamlar búðir.

Hann segir þó ekki miklar líkur á því að finna búðir biskupa undir hólnum heldur sé nafngift staðarins byggð á ímyndunarafli frekar en heimildum.

Markmið rannsóknanna er að afla þekkingar um sögu þingstaðarins og þinghalds á Íslandi ásamt því að leita að þingbúðaleifum.

Vegghleðslur úr torfi og grjóti, hugsanlega frá þjóðveldisöld, eru meðal þess sem verið er að grafa upp á Þingvöllum í sumar. Verið er að grafa í Biskupshóla sem eru rétt norðvestur við gamla bæinn og kirkjuna, austan megin við ána.

Fornleifastofnun Íslands stendur að fornleifarannsóknunum á Þingvöllum í umboði Þingvallanefndar og fær styrk til verksins frá Kristnihátíðarsjóði.

Markmiðið með uppgreftrinum er að afla nýrra heimilda um sögu Þingvalla og þinghalds á Íslandi, athuga skipulag þingstaðarins og leita að þingbúðaleifum, segir Adolf Friðriksson, forstöðumaður Fornleifastofnunar Íslands. Uppgröfturinn í sumar kemur í kjölfar tilraunaskurðar sem var grafinn síðasta sumar. Þá var komið niður á voldugan vegg úr torfi og grjóti sem Adolf segir líklegt að sé mjög gamall.

Adolf segir líklegt að í Biskupshólum, sem verið er að grafa í núna, megi finna búðir sem hugsanlega séu frá þjóðveldisöld. Hann segir að búðirnar hafi verið hlaðnir veggir sem tjaldað hafi verið yfir og búið í á meðan þinghaldi stóð.

Mikilvægt er að átta sig á hvar fornleifar leynast undir grasinu áður en farið er í framkvæmdir eins og lagningu göngustíga eða byggingu brúa. Til að fá góða mynd af því hvar fornleifar leynast á að grafa tilraunaskurði víða á Þingvöllum næstu fimm til sex sumur, að sögn Adolfs.

Adolf segir að fornleifar hafi fundist nokkuð víða á svæðinu í kringum gamla bæinn og kirkjuna og segir að jafnvel gæti verið eitthvað um minjar undir þjóðargrafreitnum. "Ef þar eru merkar minjar gæti komið til greina að minnka [þjóðargrafreitinn] eða færa hann," segir Adolf, en tekur fram að það þurfi að vera miklar líkur á merkum fundi, til dæmis vel varðveittum rústum frá upphafi þinghalds, til að grafið verði meira en tilraunaskurður í reitinn. Hægt er að fræðast nánar um uppgröftinn í gönguferðum um Þingvelli alla virka daga klukkan 13. Einnig er gengið eftir messu á sunnudögum klukkan 15.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert