Ný ópera um Gretti til Bayreuth

Ný íslensk ópera eftir Þorkel Sigurbjörnsson um útlagann Gretti Ásmundarson verður frumflutt í Þýskalandi í ágúst 2004 á alþjóðlegri hátíð ungra tónlistarmanna sem haldin er í tengslum við hina heimsþekktu Wagner-hátíð í Bayreuth. Óperan er við texta Böðvars Guðmundssonar rithöfundar.

Dr. Guðmundur Emilsson hljómsveitarstjóri hefur haft milligöngu í málinu og undirbúið það undanfarin fimm ár. Hann er stjórnandi verksins og listrænn framkvæmdastjóri, auk þess sem honum hefur verið falið að skipuleggja íslenska menningarhátíð í Bayreuth á sama tíma og óperan verður frumflutt á næsta ári.

Guðmundur segir í samtali við Morgunblaðið að það sé mikill heiður að vera boðið til þessarar hátíðar, sem nefnist á frummálinu Festival Junger Künstler Bayreuth. Hún hafi verið haldin samhliða Wagner-hátíðinni allt frá árinu 1950 og meðal upphafsmanna hennar hafi verið finnska tónskáldið Jean Sibelius. Fjölmargir heimsþekktir hljómsveitarstjórar hafa komið þar fram, m.a. Herbert von Karajan, Pierre Boulez, Christian Tielemann og Esa-Pekka Salonen. Frá upphafi hátíðarinnar hafa komið þangað þúsundir ungra tónlistarmanna frá um 80 þjóðlöndum.

Íslenskir og erlendir listamenn valdir

Guðmundur segir að um 30 manns taki beinan þátt í flutningi óperunnar, fyrir utan aðstoðarfólk, og á næstunni verði íslenskir og erlendir listamenn valdir til verksins. Hann segir ljóst að skipan hljóðfæraleikara verði alþjóðleg en fjórir einsöngvarar í aðalhlutverkum sennilega frá Íslandi og öðrum Norðurlandaþjóðum.

"Við Þorkell höfum verið að gæla við það verkefni í bráðum tíu ár að ópera yrði samin um Gretti. Nú er það að gerast. Margar óperur eru samdar og fluttar en það er ekki á hverjum degi sem þær eru frumfluttar í höfuðborg óperubókmenntanna eins og Bayreuth er. Wagner-hátíðin er ákaflega eftirsótt af fólki hvaðanæva úr heiminum og uppselt er á hana að minnsta kosti tíu ár fram í tímann. Kannski er þetta Cannes-hátíð óperuheimsins þar sem menn sýna sig og sjá aðra," segir Guðmundur.

Hann hefur verið milligöngumaður í menningarsamskiptum Íslendinga og Þjóðverja og stóð m.a. fyrir frumflutningi óperunnar Tunglskinseyjan eftir Atla Heimi Sveinsson í Þýskalandi fyrir tíu árum, og nú síðast íslenskri menningarhátíð í Bonn í desember á liðnu ári. Guðmundur segir að íslenska menningarhátíðin í Bayreuth hljóti væntanlega nafnið "Í fótspor Wagners", það sé vísan til þess að Richard Wagner hafi byggt tónleikhúsverkið Niflungahringinn að mestu leyti á Eddukvæðunum og Þorkell hafi líka leitað í smiðju Íslendingasagna. Því hafi kannski verið kominn tími til þess að Ísland heimsækti Bayreuth, höfuðból Wagners.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert