Segir harðræði í gæsluvarðhaldi hafa leitt til játninga

Sakborningar í einu stærsta amfetamínmáli sem upp hefur komið hérlendis ýmist neituðu eða játuðu sök að hluta, eða bentu hver á annan, þegar aðalmeðferð málsins hófst í Héraðsdómi Reykjaness í gær. Ein úr hópnum, 23 ára kona, sagðist hafa verið beitt harðræði af lögreglu sem leitt hafi til játninga á glæp sem hún framdi ekki. Ákært er fyrir smygl á tæpum 6 kg af amfetamíni og 300 grömmum af kókaíni og peningaþvætti frá september 2001 til janúar 2002.

Enn fremur er ákært fyrir smygl á 630 g af kókaíni til landsins árið 1998 auk frekara fíkniefnasmygls í smærri stíl. Upptökukröfur ákæruvaldsins nema rúmum 6 milljónum kr. Sakborningar eru sjö í aðalmálinu, fimm menn frá rúmlega tvítugu til fertugs og tvær konur.

Var undir miklum þrýstingi frá vinkonu sinni

Annarri konunni er m.a. gefið að sök að hafa fengið vinkonu sína til að taka við póstsendingum með fíkniefnum sem síðar voru sóttar í bíl hennar á vinnustað hennar. Samkvæmt ákæruskjali var um að ræða kíló af amfetamíni og 300 g af kókaíni. Vinkonan sagðist fyrir dómi hafa verið undir miklum þrýstingi frá meðákærðu um að taka við sendingunni og loks látið undan. Hefði hún leyft að póstsendingin yrði send á heimilisfang sitt. Síðan hefði hún sett pakkana í bíl sinn og skilið hann eftir opinn á bílastæði að beiðni meðákærðu. Í framhaldinu hefði ókunnugur maður komið til sín í vinnuna og sótt pakkanna í bílinn. Sagðist hún ekki hafa vitað um innihaldið, en gefið hefði verið í skyn að um ólögmætan varning væri að ræða. Fyrir sinn þátt fékk hún greiddar 200 þúsund krónur. Meðákærða harðneitaði því að hafa fengið vinkonu sína til þessara gerða og sagðist ekki skilja hví verið væri að ljúga upp á sig. Atburðir hefðu þvert á móti verið á þann veg að vinkonan hefði heimsótt hana í Danmörku og þær síðan ferðast saman til Þýskalands þar sem vinkonan átti að hitta ónefndan aðila.

Mjög illa haldin í gæsluvarðhaldi

Meðákærða, sem einnig er sökuð um peningaþvætti í málinu, sagðist enn fremur hafa verið beitt harðræði af lögreglu við rannsókn málsins, sem leitt hefði til falskra játninga hennar. Hún hafi verið mjög illa haldin andlega sem líkamlega og hefðu lögreglumenn notfært sér bágt ástand hennar til að þvinga fram játningar. Hefðu þeir oft yfirheyrt hana án þess að um formlega skýrslutöku væri að ræða að viðstöddum lögmanni. Í gæsluvarðhaldinu hefði læknir þá úrskurðað að hún þyrfti næringu í æð. Verjandi konunnar áskildi sér rétt til að leiða lækni og sálfræðing fyrir dóminn til að sannreyna fullyrðingar hennar.

Bróðir hennar er meintur höfuðpaur í málinu, sem einnig varðar smygl á 4,8 kg af amfetamíni auk fyrrnefndra fíkniefna. Ákærði neitar sök. Hann keypti erlendan gjaldeyri fyrir 2,7 milljónir króna, sem ákæruvaldið telur að hann hafi ætlað til fíkniefnakaupa erlendis. Þegar hann var spurður hvar hann hefði fengið peningana til gjaldeyriskaupanna sagðist hann hafa sparað af launum sínum, en tjáði sig ekki frekar um málið. Tveir ákærðu, menn um tvítugt, eru sakaðir um móttöku og geymslu á amfetamíninu og sögðust ekki hafa gert sér grein fyrir innihaldinu. Annar þeirra sagðist reyndar hafa haft illan grun um að eitthvað væri bogið við innihald dósa sem sendar voru hingað og þangað á íslensk heimilisföng og hann átti að safna saman. Hann hafi þó aldrei fengið svör um innihald þegar eftir var leitað. Því hafi hann beðið meðákærða vin sinn um að geyma dósirnar. Aðspurður af verjendum meðákærðu, sagðist hann ekki hafa þorað að geyma hugsanlega ólöglegan varning en á hinn bóginn hefði hann talið í lagi að vinur sinn lenti í þeirri stöðu. Tjáði hann ekki vininum grunsemdir sínar um að sendandi dósanna hefði óhreint mjöl í pokahorninu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert