Krefst 10 ára fangelsis yfir meintum höfuðpaur

Ríkissaksóknari krefst að minnsta kosti 10 ára fangelsis yfir meintum höfuðpaur í stórfelldu fíkniefnamáli, sem varðar smygl á tæpum 6 kg af amfetamíni til landsins í fyrra og hittifyrra, auk smygls á 300 g af kókaíni og fleiri fíkniefnum. Einnig er ákært fyrir peningaþvætti og nema upptökukröfur ákæruvaldsins um 5 milljónum króna.

Málið var dómtekið í Héraðsdómi Reykjaness í gær og verður dómur kveðinn upp 11. júlí.

Harmleikur í vinahópi

Auk dómkrafna upp á 10 ára fangelsi að lágmarki yfir meintum höfuðpaur krafðist saksóknari fangelsisrefsingar yfir sex öðrum sakborningum í málinu. Vegna alvöru málsins taldi saksóknari að enginn þeirra ætti sér málsbætur sem réttlættu skilorðsbundna refsingu. Verjendur sakborninganna kröfðust í flestum tilvikum sýknu, eða vægustu refsingu. Í varnarræðum þeirra kom fram gagnrýni á þann drátt sem orðið hefur á málinu, sem bitnaði illa á sakborningum, nú þegar þeir væru ýmist komnir með fjölskyldur og fasta vinnu eða að hefja háskólanám. Verjandi eins sakbornings lýsti málinu í heild, sem "harmleik í vinahópi" þar sem sakborningarnir, sem eru flestir gamlir vinir úr sama hverfi, hefðu hver af öðrum flækst inn í fíkniefnasmygl. Fleiri verjendur tóku undir þetta og sögðu að í málinu hefði traust og vinátta fólksins, sem flest er nú um tvítugt, verið misnotað.

Verjandi eins sakborningsins, 23 ára konu, gagnrýndi meint harðræði lögreglu í garð skjólstæðings síns og lét geðlækni, lækni og sálfræðing bera vitni. Allir höfðu þeir afskipti af ákærðu á meðan hún var í gæsluvarðhaldi og báru um bágt líkamlegt og andlegt ástand hennar. Hún var í gæsluvarðhaldi milli 26. janúar og 4. mars 2002. Fullyrti verjandinn að lögreglan hefði vitað af veikindum ákærðu en samt geymt hana á lögreglustöð heilu og hálfu dagana milli þess sem hún var í dómsyfirheyrslum og í varðhaldi á Litla-Hrauni. Hefði ill meðferð fangans leitt að lokum til falskra játninga sem dregnar voru til baka við meðferð málsins fyrir dómi. Saksóknari vísaði fullyrðingum um meint harðræði á bug og taldi á hinn bóginn líklegra að ákærða hefði breytt framburði sínum fyrir dómi vegna eftirsjár yfir að hafa játað sakir í gæsluvarðhaldi og borið um leið sakir á bróður sinn, sem er meintur höfuðpaur í málinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert